Fegurð Jökulsárlóns var engu lík við sólarlagsbil í gærkvöldi. Sólin gyllti jökulinn, lónið var fullt af sel sem undi sér vel í ísköldu vatninu, úti við ströndina vokaði skúmurinn.
Þetta var mjög ólíkt þeirri blíðu náttúru sem við höfðum séð fyrr um daginn á Fljótsdalshéraði. Þar komum við að Vallanesi þar sem bóndinn Eymundur Magnússon stundar afar merkilegt ræktunarstarf. Þar eru akrar með byggi og hveiti, og stórir matjuratagarðar með alls kyns káli, kartöflum og rófum auk kryddjurta sem eiga líklega eftir að verða stærri hluti í ræktuninni.
Það var meira en tuttugu stiga hiti í Vallanesi, það er ekkert veðurlag á Íslandi betra en austurlensk blíða.
Á Höfn er lúxusveitingastaðurinn Humarhöfnin. Þar fyllist allt hvert kvöld yfir ferðamannatímann. Humarinn kemur beint úr bátunum við höfnina og er einstaklega ljúffengur. Veitingastaðurinn er gömlu húsnæði Kaupfélags Austur-Skaftfellinga, það er tengt skemmtilega við þá sögu. Við gistum á Hala í Suðursveit, ætlum að skoða Þórbergssafnið á eftir og förum svo í Skaftafell. Kári heimtar að fara á jökul, helst vill hann standa á jökli eða þá stökkva á milli ísjaka.
Það rignir reyndar dálítið – hingað til hefur alls staðar verið bjartviðri þar sem við höfum komið.