Það er til fólk sem heldur að það sé í gangi samsæri útlendinga um að hirða allt af Íslendingum. Umsátrið var þetta kallað í einni bók.
Þetta er alveg merkileg hugmynd, því voru íslenskir bankamenn sem fóru um ránshendi um alla sjóði á Íslandi, það eru örfáir íslenskir sægreifar sem hafa tekið yfir sjávarauðlindina og það voru íslenskir útrásarvíkingar sem ætluðu að hirða orkuauðlindina. Þar byrjaði ferlið sem leiddi loks til kaupa Magma á HS-Orku.
Annars hafa útlendingar hafa sáralítinn áhuga á Íslandi, nema ef til vill þegar gýs eldfjall hérna og flugumferð í heiminum stöðvast. Ég hef ferðast talsvert erlendis í sumar; það virðast allir vera búnir að gleyma kreppunni á Íslandi. Eyjafjallajökull þurrkaði hana út í vitund heimsins.
Fyrir utan kröfuhafa bankanna sem eru að reyna að fá peningana sína til baka, en tapa miklu af þeim.
Því er haldið fram að ESB ásælist auðlindir Íslands. Það er mikill reginmisskilningur á því hvernig sambandið virkar. Ýmislegt má að ESB finna en þetta er bull. Fyrir utan að hér höfum við auðlindir sem rétt nægja til að halda uppi 320 þúsund manna samfélagi – í ríkjum Evrópusambandsins búa hátt í 500 milljón manns.
Fyrir stuttu birtist lesendabréf frá Kanadamanni í Grapevine þar sem var fjallað um þetta. Þar sagði:
„The rest of the world is not your enemy, and does not hate Iceland or Icelanders. You might find it hard to believe, but the vast majority of the world doesn’t even know you exist. The most press you guys ever get is when a volcano shuts down air traffic IN OTHER COUNTRIES.“