Flækjustigið í Magma málinu er nokkuð hátt. Nú krefst þingflokkur Vinstri grænna þess að kaup kanadíska félagsins á HS-Orku verði ógilt.
Útlendum fyrirtækjum er ekki bannað að eiga hlut í íslenskum orkufyrirtækjum – til að gera það þarf að breyta lögum um erlenda fjárfestingu og orkulögum. Lögin segja í grundvallaratriðum að orkulindinar séu í opinberri eigu, en afnotaréttinn megi kaupa og selja. Þetta er þó ekki hægt að gera afturvirkt, til að ógilda þessi kaup er hugsanlegt að Alþingi þyrfti að samþykkja lög um að taka HS-Orku eignanámi.
Það má reyndar athuga hvort það sé ólöglegur gjörningur þegar Magma stofnar skúffufyrirtækið í Svíþjóð til að geta starfað inn á Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta hefur þó verið skoðað áður og þá var niðurstaðan sú að þetta væri löglegt, fyrirtækið hefði „staðfesturétt“ á EES-svæðinu. Líklegt er að fjöldi annarra fyrirtækja starfi með svipuðum hætti á EES-svæðinu.
Ríkið er heldur ekki beinn aðili að málinu. Magma keypti hlut Geysis Green Energy í HS Orku. Það var semsagt búið að einkavæða þetta löngu áður en Magma kom til sögunnar.
Það fyrirtæki var upprunalega í eigu Hannesar Smárasonar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.
Eftir það kemst fyrirtækið um tíma í eigu íslensku bankanna – eða kröfuhafa þeirra.
Það var reynt að selja það innanlands, til lífeyrissjóða og ríkisins, en áhugi reyndist ekki vera fyrir hendi – eða fjármagn til að kaupa fyrirtækið.
Ef hægt verður að rifta kaupunum, eins og Vinstri grænir krefjast, er þá annað hvort að HS Orka komist aftur í hendur bankanna (og ótilgreindra erlendra kröfuhafa þeirra) eða ríkið beinlínis kaupi fyrirtækið – nema hægt verði að fá lífeyrissjóðina til að gera það. Sveitarfélög á Suðurnesjum koma varla til greina sem kaupendur og ekki á Orkuveita Reykjavíkur peninga.
Að því loknu mætti kannski hugsa sér að settur verði alvöru lagarammi um eignarhald á íslenskum auðlindum sem gæti orðið sátt um. Og þá hlýtur fiskveiðiauðlindin líka að vera undir – Vinstri grænir eru furðu þöglir um hana.