Talskona Björgólfs Thors Björgólfssonar segir að auðkýfingurinn beri enga ábyrgð á Icesave reikningunum, heldur einungis stjórnvöld.
Það er einkennilega bíræfið.
Björgólfsfeðgar voru langstærstu eigendur bankans.
Bankastjórnendur sem störfuðu á þeirra vegum stofnuðu til þessara reikninga – hrósuðu sér af því hvað þetta væri mikil snilld. Það er látið eins og Björgólfur hafi ekki skipt sér af stjórn bankans – allir sem þekkja sorgarsöguna um íslenska fjármálakerfið vita að það er ekki satt, að bankarnir voru nánast eins og rassvasafyrirtæki fyrir eigendur sína sem sköffuðu þeim fé eftir hentugleikum.
Landsbankinn var notaður til að fjármagna starfsemi Björgólfa í mæli sem á ekkert skylt við eðlilegan bankarekstur – aðeins viku fyrir hrun fékk Björgólfur Thor til dæmis 24 milljarða króna lán úr bankanum. Rannsóknarnefnd Alþingis taldi að þetta hefði varðað við lög. Björgólfur telur sig sjálfsagt ekki bera ábyrgð á því; hann tók bara við fénu.
Seðlabanki, Fjármálaeftirlit og ráðuneyti klikkuðu gjörsamlega á verðinum, hlutur þessara stofnana er mjög ófagur – en á tíma þegar Björgólfur er að reyna að koma sér í mjúkinn hjá Íslendingum með skipulagðri áróðursherferð er sérdeilis ógeðfellt að hann skuli frýja sig ábyrgð á Landsbankanum.
Það er svo tímanna tákn að Björgólfur skuli ætla að halda höllinni sem hann keypti í miðborg Reykjavíkur, á þeim forsendum að Thor Jensen hefði verið langafi hans. Hús langafans var náttúrlega undireins veðsett upp í rjáfur – en það er eftir öðru þegar sómakennd íslensku útrásarvíkinganna er annars vegar.
Það var einhver sérkennileg fordild í Björgólfi Thor að vilja tengja sig við nafn þessa langafa síns, kannski er það minnimáttarkennd? Ég þekki nokkur önnur langafabörn Thors gamla sem virðast vera alveg laus við þetta. Thor Jensen varð gjaldþrota en var sagður hafa borgað skuldirnar sínar. Ætlar langafadrengurinn að vera sá sem þykist borga skuldir sínar?