Það er greinilegt að Magmamálið er farið að vekja mikinn titring innan Vinstri grænna.
Einn helsti liðsmaður ríkisstjórnarinnar í flokknum, Árni Þór Sigurðsson, segir að rifta eigi Magmasamningnum ef kemur í ljós að hann stenst ekki lög.
Það er hins vegar fátt sem bendir til þess að stofnun skúffufyrirtækis í Svíþjóð sé lögbrot.
Ross Beaty, forstjóri Magma, hefur nokkuð til síns máls þegar hann spyr hvort fólk vilji frekar fyrirtæki frá Búlgaríu eða Póllandi.
Því varla álítur fólk – sem jafnvel er á móti Evrópusambandinu – að það sé óæskilegt að fá hingað fyrirtæki frá hinu velmegandi fyrirmyndarríki Kanada.
Skúffufyrirtækið er í raun bara lagatæknilegt atriði sem hefur fengið alltof mikið vægi í umræðunni.
Þingmenn eins og Árni verða að svara því hvaða almennu reglur eigi að gilda um nýtingu auðlinda á Íslandi. Fyrr verður ekkert vit í þessari umræðu.