Ég hef áður lýst þeirri skoðun að DV sé besta blaðið sem er gefið út á Íslandi í dag.
Ég hef verið lengi í fjölmiðlum og þykist sjá að ritstjórninni ríkir mikil kappssemi , blaðamenn leggja sig mikið fram, ég er viss um að vinnudagarnir eru langir og strangir – en menn telja það ekki eftir sér vegna þess að þeir hafa trú á því sem þeir eru að gera.
Sem betur fer er eignarhaldið ekki lengur að þvælast fyrir DV, og þeir hafa nóg af málum til að skrifa um – ekki þurfa þeir að óttast að Mogginn eða Fréttablaðið skáki þeim í rannsóknarblaðamennskunni. Morgunblaðið gengur á mjög einstrengingslegri pólitískri sýn og er í grimmri hagsmunagæslu og Fréttablaðið er afar dauft, enda getur það ekki þrifist undir núverandi eiganda.
Síðasta skúbbið hjá DV er símtalið sem blaðið birti í morgun milli tveggja starfsmanna Kaupþings. Þar er Halldór Bjarkar Lúdvígsson, starfsmaður á fyrirtækjasviði, að lýsa Al-Thani svindlinu sem bankinn og Ólafur Ólafsson skipulögðu, fyrir Lilju Steinþórsdóttur hjá innri endurskoðun bankans.
Þetta er merkilegur texti – og ekki síst að bankafólkinu virðist þykja þetta í góðu, endurskoðandinn segir bara já og amen.