fbpx
Miðvikudagur 23.júlí 2025
Eyjan

Stutt pólitískt æviágrip

Egill Helgason
Miðvikudaginn 2. júní 2010 10:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar ég var ungur var mikil vinstri róttækni í loftinu. Þetta var tími samtaka eins og EIKml, KSML og Fylkingarinnar. Hin hefðbundnu stjórnmál voru annars mjög leiðinleg. Þetta var tími karlhlunka eins og Ólafs Jóhannessonar, Geirs Hallgrímssonar og Lúðvíks Jósefssonar – manni fannst andleysið algjörlega yfirþyrmandi. Ungt fólk sem tók þátt í starfi ungliðahreyfinga stjórnmálaflokka þótti frámunalega hallærislegt.

Ég reyndi í smátíma þegar ég var nýbyrjaður í menntaskóla að lesa mér til um marxisma, tók það nokkuð föstum tökum, fór í gegnum nokkur grundvallarrit, áleit mig jafnvel vera kommúnista í nokkra mánuði. Gekk í einni Keflavíkurgöngu í góðu veðri og góðum fílíng; fór svo á landsfund hjá Samtökum herstöðvaandstæðinga, hann leystist upp í deilur milli maóista og trotskíista. Þá eiginlega missti ég áhugann. Ég náði aldrei að verða félagi í neinum af þessum samtökum vinstrisins, en nokkrir vinir mínir voru félagar í Rauðri æsku þar sem hitinn var svo mikill að kom til handalögmála milli fylkinga.

Annars var ég frekar ópólitískur. Hafði eiginlega ekki áhuga. Fannst stjórnmál vera lágkúruleg miðað við bókmenntirnar sem ég var sífellt að lesa. Svo varð ég blaðamaður á Tímanum. Þá var mér boðið að ganga í Framsóknarflokkinn, sem ég gerði ekki. Ég náði samt þeim árangri að skrifa nokkra leiðara í Tímann – sem þá hét reyndar NT – og svo skrifaði ég líka leiðara seinna á lífsleiðinni í Alþýðublaðið. Ég hef semsagt verið leiðarahöfundur hjá báðum þessum dánu flokksblöðum.

Ég kveikti ekkert sérstaklega á Vilmundi Gylfasyni þegar hann var á ferð. Kaus hann þó, það gerði margt ungt fólk á þeim tíma. Hugmynda hans gætti á Helgarpóstinum þar sem ég vann nokkurn tíma – þar var stunduð blaðamennska sem var mjög gagnrýnin á hið staðnaða íslenska kerfi, á tíma þegar var varla hægt að taka mark á stafkrók sem stóð í flokksblöðunum.

Áhugi minn á stjórnmálum vaknaði ekki aftur fyrr en ég var næstum þrítugur. Þá fór ég á bókasafnið, vissi ekki hvað ég ætti að lesa, og endaði með því að fara heim með ævisögur nokkurra íslenskra stjórnmálamanna sem ég las upp til agna. Uppfrá því fór ég að lesa bækur um pólitík og sögu – og missti eiginlega alveg áhugann á fagurbókmenntum um tíma.

Áður hafði ég reyndar farið í gegnum allt Gúlag Eyjahafið eftir Solshenitsyn. Það er ein af þeim bókum sem hefur haft mest áhrif á mig –  ég fékk tótal andstyggð á kommúnismanum – og reyndar öllum stjórnmálaöfgum.

1990 álpaðist ég út í það að bjóða mig fram í prófkjöri hjá fyrirbæri sem kallaðist Nýr vettvangur. Þetta var tilraun til að ná saman öflum á vinstri vængnum í eitt framboð til borgarstjórnarkosninga. Það mistókst hrapallega. Ég beitti mér ekki mikið í þessu prófkjöri, hélt stutta ræðu á einum fundi, lenti í tólfta sæti. Mér fannst félagsskapurinn frekar leiðinlegur svo ég tók ekki sæti á lista Nýs vettvangs. Þannig að ég hef aldrei verið í framboði í kosningum.

Þremur árum síðar var ég kosinn fulltrúi á landsfund Sjálfstæðisflokksins, að mig minnir fyrir Heimdall. Ég var mjög upptekinn við vinnu landsfundarhelgina og rétt náði að kíkja og heilsa upp á aðra fundarmenn. Ég held ég sé ennþá á skrá hjá Sjálfstæðisflokknum síðan þá; allavega fæ ég sendar rukkanir frá einu af hverfafélögum flokksins inn í heimabankann hjá mér.

Á þessum árum var ég líka tímabundið í Alþýðuflokknum – kunni að mörgu leyti ágætlega við þann flokk.  Í Alþýðubandalaginu var ég líka, en það var vegna þess að ég hafði verið skráður þangað inn að mér forspurðum – svoleiðis voru aðferðirnar sem tíðkuðust í innanflokkserjunum á þeim bæ. Þegar ég komst að þessu bað ég þá vinsamlegast um að fjarlægja mig úr flokkskránni – Alþýðubandalagið var einstaklega leiðinlegur stjórnmálaflokkur.

Mér hefur stundum verið núið um nasir að hafa ritstýrt blaði fyrir R-listann fyrir kosningarnar 1994. Þá var ég blaðamaður á lausum kili, fékk borgað fyrir þetta – tók þetta semsagt að mér eins og verktaki – en fannst líka eins og mörgum öðrum að væri kominn tími á valdaskeið Sjálfstæðisflokksins í borginni. Nokkrum mánuðum síðar skrifaði ég grein í Alþýðublaðið sem varð nokkuð fræg, þar sem ég talaði um að R-listinn væri strax farinn að valda vonbrigðum. Stuðningsmenn R-listans urðu mjög argir eftir þessa grein, ég man að Ingibjörg Sólrún kallaði mig „leigupenna“ í útvarpinu en einn eldheitur stuðningsmaður gerði sig lítið fyrir og kallaði mig „mellu“.

Ég hef alltaf átt frekar erfitt með að vera í flokki eða liði – nema kannski í KR, en þar hef ég svosem ekki verið annað en óbreyttur áhorfandi í stúkunni í gegnum árin.

Hins vegar eru margir sem vilja troða manni í einhverja flokka sem maður kannast ekkert við að tilheyra. Nú sé ég til dæmis að gamall vinur minn úr Vesturbænum, Skafti Harðarson, er að gera úr mér Baugspenna – en það er mesta skammaryrði sem þekkist hjá honum og vinum hans.

Ég get reyndar sagt smá sögur af því. Einu sinni, þegar ég var að vinna á Stöð 2, hringdi í mig yfirmaður þar og spurði hvers vegna ég væri alltaf með óvini fyrirtækisins í þáttum hjá mér. Ég hváði, sagðist ekki kannast við að Stöð 2 ætti sérstaka óvini. Samtalið hélt áfram, og þá skildi ég hvað maðurinn var að fara. Hann var að tala um allt batteríið í heild sinni, Bónus, Hagkaup, Stöð 2, Fréttablaðið, allt klabbið hékk í rauninni saman í augum hans. Og ég sem hélt ég væri bara að vinna hjá Stöð 2 – og hafði meðal annars boðið Jónínu Ben, Páli Vilhjálmssyni, Jóni Gerald og Friðriki G. Friðrikssyni í þætti hjá mér.

Það var um svipað leyti að mér var boðið í lönsinn hjá Hreiðari Má sem ég hef held ég aldrei sagt frá; þetta var í eitt af fáum skiptum sem ég náði að tala við útrásarvíking í eigin persónu. Ég fékk boð frá ritara bankastjórans, mætti upp í Kaupþing, við borðuðum lambakjöt undir stóru málverki eftir íslenskan nútímalistamann. Ástæða fundarins var sú að ég hafði talað illa um bankana í sjónvarpinu – bankastjórinn vildi skýra út framtíðarsýn Kaupþings. Hún var einföld, ég man að hann fór í gegnum glærusjó með mér, Kaupþing hafði stækkað mikið, það átti eftir að stækka meira, og á endanum yrði það einn af stærstu bönkum í veröldinni – ég man að meðal annarra banka sem brá fyrir í glærusýningunni var Chase Manhattan, svona til samanburðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?

Orðið á götunni: Hvenær tekur maður þátt í málþófi og hvenær ekki?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Vaka stýrir COLLAB

Vaka stýrir COLLAB
Eyjan
Fyrir 1 viku

Áslaug Arna aftur komin á laun þrátt fyrir námsleyfi – Fær 3,1 milljónir þar til varamaður tekur við

Áslaug Arna aftur komin á laun þrátt fyrir námsleyfi – Fær 3,1 milljónir þar til varamaður tekur við
Eyjan
Fyrir 1 viku

710 klukkustundir og 10 mínútur af þingfundum á árinu en bara 35 frumvörp af 131 samþykkt

710 klukkustundir og 10 mínútur af þingfundum á árinu en bara 35 frumvörp af 131 samþykkt