Ég hef talað við tvo hámenntaða erlenda hagfræðinga nýlega, hvorn í sínu lagi, báðir voru þeir búnir að kynna sér málefni Íslands mjög vel.
Báðir sögðu að Ísland væri að koma miklu betur út úr huninu en hefði mátt búast við. Staðan væri ólíkt bretri en horfur hefðu verið á – því stjórn efnahagsmála hefði farið algjörlega úr böndunum árin 2003-2008, með óheyrilegri skuldasöfnun, fáránlega hátt skráðu gengi, gerfivelmegun og svo þenslu bankanna sem Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hefðu átt að hafa hemil á.
Annar hagfræðingurinn sagði að Ísland væri muddling through – að krafsa sig í gegnum þetta hægt og bítandi. Báðir töldu að plan Alþjóða gjaldeyrissjóðsins fyrir Ísland væri ekki svo ýkja harðneskjulegt.
Hinn hagfræðingurinn talaði um að það hjálpaði að innviðir samfélagsins væru sterkir, sterkari en almennt er í samfélögum sem lenda í svona krísu. Við værum líka í þeirri stöðu að geta aflað mikilla gjaldeyristekna og þar hjálpar lækkandi gengi krónunnar.
Þar sagði hagfræðingurinn að gjaldeyrishöftin væru að virka okkur í hag. Hins vegar mætti krónan alls ekki styrkjast of mikið næstu árin, Seðlabankinn hefði leyft henni að styrkjast nokkuð en mörkin lægju sennilega í genginu 150 á móti evrunni. Krónan yrði að vera á því róli næstu árin.
Og því miður – hvorugur þeirra taldi að hægt yrði að grípa til einhverra almennra aðgerða til að leiðrétta stöðu skuldugra heimila.