Ekkert ríki sem vill kalla sig siðmenntað getur sætt sig við að einn aðili hafi 60 prósenta hlutdeild á matvörumarkaði. Slík hlutfallstala þætti fráleit í ríkjum sem við berum okkur saman við. Stjórnvöld væru löngu búin að aðhafast. Það er til skammar hversu stjórnmálamenn og eftirlitsstofnanir hafa verið látið einokun óáreitta í íslensku samfélagi, og ekki bara í matvöruverslun – hvað til dæmis með fyrirtæki eins og Mjólkursamsöluna.
Nú þegar óvíst er um eignarhaldið á verslunum Baugsfeðga er upp í loft ætti að vera tækifæri til að láta til skarar skríða gegn einokuninni. Lausnin felst ekki í því að nýir eigendur komi að búðunum – þótt ekki verði annað séð en að þeir eigi alveg jafn mikinn rétt til að eignast klabbið og Baugsfeðgar ef þeir reiða fram tilskylda fjárupphæð – heldur í því að brjóta veldið upp í einingar og selja þær hverja í sínu lagi.
Stjórnmálamennirnir segja að þetta sé mál bankamannanna og komi þeim ekki við. Það er heldur léleg afsökun. Þetta er brýnt þjóðþrifamál og hefur verið lengi, þótt pólitíkusarnir hafi kosið að stinga höfðinu í sandinn.
Jóhannes í Bónus skýrði þetta sjálfur ágætlega út í viðtali við Tímann í mars 1991:
“Það er afar óhollt í kapítalísku þjóðfélagi, að eitt fyrirtæki verði svo stórt að það nái kannski 30-40% markaðshlutdeild. Það á sér hvergi hliðstæðu í nágrannalöndum okkar að eitt fyrirtæki nái slíkum tökum. Það eru rosaleg völd fólgin í því að vera smásali. Náir þú góðum tökum á smásölumarkaði, þá nærð þú líka kerfisbundið tökum á ákveðnum iðnaði. Það er mjög hættulegt bæði framleiðendum og innflytjendum verði einn smásali mjög stór. Hann ræður þá ekki aðeins miklu um vöruval á markaðnum, heldur getur hann líka farið að framleiða verðbólgu í þjóðfélaginu.
Hvernig? Tökum dæmi: Segjum að þú hafir 40% markaðshlutdeild á ákveðnu sviði. Fyrir íslenskan framleiðanda skiptir þá miklu máli að þú seljir vörurnar hans. “Sjálfsagt,” segir þú, “en ég vil þá fá 20% afslátt.” Við svo mikinn afslátt ræður framleiðandinn ekki. Og hvaða ráð hefur hann þá til að komast inn í þetta stóra fyrirtæki? Jú, hann á eina leið: Hann getur hækkað verðið hjá sér um svona 7% yfir línuna til að kaupa sig inn í hillurnar hjá þér. En þar með hefur vöruverðið hækkað yfir allt landið – líka hjá þér, þó þú getir auðvitað selt hlutfallslega ódýrara en hinir, vegna 20% afsláttarins sem þú pressaðir í gegn.
Svona er unnið hér í þjóðfélaginu, þegar völdin komast á stórar hendur. Fyrir þessu verða menn í smáiðnaði. Það er bara snúið upp á hendurnar á þeim og þeir eiga ekki annarra kosta völ en að hækka vörurnar sínar, til þess að geta veitt þeim stóru sérkjör .”