Það eru fleiri ástæður fyrir því að fækka ráðuneytum en sparnaður.
Ein er sú að ráðuneyti eru mjög fáliðuð. Sum eru einungis skrifstofur með örfáum starfsmönnum og afskaplega vanmegnug.
Það getur orðið til að styrkja stjórnsýsluna að fækka ráðuneytunum. Um leið þarf auðvitað að efla fagmennskuna innan þeirra.
Það verður einn prófsteinninn á það hvort stjórnmálamenn séu tilbúnir í einhverja uppstokkun hvort tekst að fækka ráðuneytum, því þetta er auðvitað bara eitt lítið skref á langri leið.
Í Silfri Egils í vetur var talað um að þyrfti að setja skilanefnd á stjórnsýsluna, í ljósi þess sem lesa má um ríkisbresti i skýrslu rannsóknarnefndar virðist ekki vanþörf á.
Það er reynt að rugla málið með því að blanda ESB inn í þetta, en það er engin ástæða. Afdrif ESB umsóknar ráðast ekki af því hvernig uppstillingu ráðuneyta er háttað.
Og um þetta er beinlínis ritað í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar svo það er býsna langsótt að halda því fram að málið snúist um þann mann sem nú gegnir embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.