Karl Th. Birgisson, einn af stuðningsmönnum Össurar í Samfylkingunni, vill að Dagur B. Eggertsson fari frá vegna úrslitanna í borgarstjórnarkosningunun. Það er svosem ekki óeðlileg krafa.
En þá má kannski horfa víðar um land. Samfylkingin tapar hérumbil alls staðar og víða mjög stórt. Varla verður Degi kennt um það. Á landsvísu tapaði flokkurinn meira en 30 prósentum.
Er þá ekki óhætt að kenna flokksforystunni um? Hvað með Jóhönnu, Össur, Kristján Möller – ráðherrana úr sjálfri hrunstjórninni?
Vandi Samfylkingarinnar er hins vegar sá að það er enginn afgerandi forystumaður í sjónmáli – Dagur á ekki séns eftir laugardaginn, ekki heldur Lúðvík Geirsson, Árni Páll er fjarska óvinsæll, sumir nefna Guðbjart Hannesson, sem er bæði vinsæll og farsæll, en er spurning hvort hann hefur karakter til að vera fremst í flokki á þessum erfiðu tímum þegar það er sannarlega ekki öfundavert að vera í pólitík.