Þetta eru skrítnar niðurstöður kosninga.
Sigur Besta flokksins í Reykjavík eru náttúrlega einhver ótrúlegustu tíðindi í íslenskri stjórnmálasögu, bylmingshögg á fjórflokkana. Sigur L-listans á Akureyri er líka stórtíðindi, og þar var enginn grínari í framboði. Maður veltir fyrir sér hvað hefði gerst ef svona framboð hefðu tekið þátt í kosningunum víðar um landið. Það er ljóst að það er jarðvegur fyrir breytingar.
Nú er það Besti flokkurinn sem á að geta ákveðið hvernig Reykjavík verður stjórnað næstu fjögur árin, nema Sjálfstæðisflokkur og Samfylking myndu óvænt ákveða að mynda meirihluta. Það er þó afar ólíklegt.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar miklu en ekki jafnmiklu og búist var við. Það er að miklu leyti að þakka vel heppnaðri kosningabaráttu þar sem Hönnu Birnu var stöðugt teflt fram sem miklum leiðtoga, en nánast látið eins og aðrir væru ekki í framboði með henni.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins er ótrúlega traust á stöðum eins og Garðabæ, Vestmannaeyjum og Reykjanesbæ. Hann horfir hins vegar fram á að vera máski ekki í meirihluta í neinu af stærstu sveitarfélögum landsins (við vitum þó ekki með Reykjavík), ekki á Akureyri, varla í Hafnarfirði og Kópavogi.
Í Hafnarfirði er VG í oddaaðstöðu, getur valið hvort flokkurinn vinnur með Samfylkingu eða Sjálfstæðisflokki. Það yrði tæplega vel séð innan ríkisstjórnarinnar ef hann færi í eina sæng með Sjálfstæðismönnum í höfuðvígi krata. Í Kópavogi eru línunar óskýrari, þar koma ný framboð, Næstbestiflokkurinn og Kópavogslistinn, mönnum að. Það er í hendi þessara framboða hverjir stjórna bænum næstu fjögur árin. En þar í bæ er ekki í boði að mynda meirihluta nema með þremur flokkum eða fjórum flokkum, nema svo ólíklega vilji til að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking vinni saman.
Ríkisstjórnarflokkarnir fá afar vonda kosningu, Samfylkingin er krísu eftir þetta, en útreið Vinstri grænna sætir furðu. Að einhverju leyti er um að kenna óvinsælli ríkisstjórn – en í tilfelli VG virðist líka vera um að ræða frambjóðendur sem höfða lítt til kjósenda. Það er eiginlega makalaust að sá eini af fjórflokkunum sem ekki getur kallast hrunflokkur skuli ekki gera betur en þetta.
Framsókn er í stjórnarandstöðu – það er lengst síðan hún hefur verið í ríkisstjórn af fjórflokkunum – en hún nýtur þess alls ekki. Framsókn nær ekki inn manni í Reykjavík og nú er staða flokksins slík að hann á aðeins einn sveitarstjórnarmann á öllu höfuðborgarsvæðinu, þann sem slapp naumlega inn í Kópavogi.