Ég minnti á það um daginn að Halldór Ásgrímsson hefði sagt af sér sem forsætisráðherra eftir síðustu sveitastjórnakosningar.
Er eitthvað slíkt í spilunum núna? Einhverjar breytingar í landsmálunum?
Ríkisstjórnarflokkarnir fara mjög illa út úr kosningunum; í Reykjavík fá þeir samanlagt 26 prósent atkvæða.
Kallar það á uppstokkun í stjórninni?
Og Sjálfstæðisflokkurinn, hann er að fara að halda landsfund í júní. Nær Bjarni Benediktsson að halda formannssætinu á fundinum, eða kemur kannski upp krafa um að Hanna Birna verði formaður? Það er ekki víst að hún vilji, og það gæti veikt hana að allar líkur eru á að hún verði óbreyttur borgarfulltrúi í Reykjavík næstu árin.
Svo er reyndar hitt að maður fékk á tilfinningunna í kosningabaráttunni að Hanna Birna væri sjálfstætt pólitískt afl sem væri í mjög litlum tengslum við Sjálfstæðisflokkinn.
Staða Kristjáns Þórs Júlíussonar, sem hugsanlega myndi sækjast eftir formenskunni, hefur líklega veikst eftir afhroð Sjálfstæðisflokksins á Akureyri.