Þetta kemur ekki á óvart – að það sé einn upplýsingafulltrúi á hvern blaðamann í landinu.
Sum mál eru þannig að maður er ekki fyrr búinn að fjalla um þau en upplýsingafulltrúi einhvers fyrirtækis eða stofnunar er búinn að hafa samband við mann.
Þeir hafa einhverjar athugasemdir, það byrjar eitthvað samtal, en smátt og smátt finnur maður að þeim er ekki mikið niðri fyrir, meina eiginlega ekkert með þessu, þeir eru bara að vinna vinnuna sína. Kannski var það forstjórinn sem sagði þeim að hringja.
Ég er reyndar orðinn leiður á að heyra sjálfan mig spyrja upplýsingafulltrúana hvernig þeir nenni þessu – margir þeirra eru nefnilega góðir blaða- og fréttamenn sem maður saknar úr fjölmiðlunum.
Flestir hafa farið í störf upplýsingafulltrúa vegna þess að launin eru miklu betri og vinnutíminn þægilegri, en ekki af hugsjón – eða það ímynda ég mér.