Hjörtur Hjartarsson sendi þetta bréf:
— — —
Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs ætlar að láta gott heita að hamfarakapítalistar erfi landið. Menn sem kölluðu samfélagsleg móðuharðindi yfir þjóðina. Bankamálaráðherrann segir ástæðuna þá að við búum í réttarríki. Forsætisráðherra telur afskipti af bönkum viðsjárverð, og útskýrði það með svofelldum orðum á þingi hins alræmda Viðskiptaráðs í gær (viðeigandi):
„Þeim sjónarmiðum hefur verið haldið fram að ríkisstjórnin ætli að láta það afskiptalaust að sömu persónur og leikendur og fóru með stórt hlutverk í fjármála- og viðskiptalífinu fyrir hrun, verði áfram við stjórnvölinn. Að þessu tilefni vil ég láta koma fram að ég er algerlega mótfallin því að stjórnmálamenn handstýri fjármálakerfinu.“
Þetta er dálítið snúið, því ríkisstjórnin ætlar reyndar að láta það afskiptalaust, „að sömu persónur og leikendur og fóru með stórt hlutverk í fjármála- og viðskiptalífinu fyrir hrun, verði áfram við stjórnvölinn“, og út á það ganga afsakanir ráðherrans.
Máli sínu til stuðnings vísaði Jóhanna Sigurðardóttir til einkavæðingar bankanna á sínum tíma, en þá stálu stjórnmálamenn bönkunum og létu í hendur klíkubræðra sinna, sem síðan settu bankana á hausinn og þjóðina með. Ólafur nokkur Ólafsson, kenndur við Samskip, kom þar við sögu ásamt fleiri virðingarmönnum sem vilja endurnýja og staðfesta yfirráð sín í íslensku samfélagi. Nú í skjóli Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.
Jóhanna Sigurðardóttir hlýtur að telja öll afskipti stjórnmálamanna af bönkum ógurlega vond. Önnur helsta ástæða hrunsins er nefnilega af flestum, nema heittrúuðum frjálshyggjumönnum, álitin vera afskiptaleysi stjórnvalda og stjórnmálamanna. Ófullnægjandi löggjöf og reglurverk, ásamt slöku eftirliti. Í einu orði sagt, VANRÆKSLA.
Svo er það réttarríkið á Íslandi. Áhyggjur landsmanna af því snúast helst um hvort sá sterkari geti, refsilaust og án alvarlegra afleiðinga, komist upp með að svipta þann veikari eignum og lífsafkomu. Ríki þar sem slíkt viðgengst getur ekki talist réttarríki. Áhyggjur Gylfa Magnússonar bankamálaráðherra eru af öðrum toga. Hann vill slá skjaldborg um hamfarakapítalistana og gæta þess að þeir njóti fullra og óskoraðra réttinda. Hvað sem það kostar land og lýð. Engu skiptir t.d. þótt einn þeirra sæti sakarannsókn sem grunaður maður í einu mesta fjársvikamáli sem sögur fara af. Máli sem hefur helsært íslenskt samfélag. Gylfi gerir ekki neitt. Ekki frekar en Jóhanna.
Afsakanir þessara tveggja ráðherra á vanrækslu ríkisstjórnarinnar eru að engu hafandi. Almenningur á að reka af höndum hverja þá ríkisstjórn sem lætur viðgangast að mafíuríki festist í sessi á Íslandi. Almenningur má almennt ekki vanrækja borgaralegar skyldur sínar og dyggðir, og alls ekki þegar stjórnvöld bregðast algjörlega. – Ábyrgð þeirra er mikil sem verja vanrækslu ríkisstjórnarinnar með þögn aðgerðarleysi.