Bankarnir virðast hafa sent Seðlabankanum og Fjármáaeftirlitinu lygar, sem þessar stofnanir trúðu svo – eða töldu þægilegra að trúa. Frægt er álagspróf FME frá því nokkrum vikum fyrir hrun þar sem sagði að undirstöður bankanna væru traustar.
Þetta hefur meðal annars komið fram hjá Gunnari Andersen, hinum nýja forstjóra FME, hann hefur tjáð sig um ranga upplýsingagjöf bankanna og sagt að ársreikningar þeirra hafi ekki gefið rétta mynd af stöðu þeirra.
En það breytir samt ekki samábyrgð Hollendinga og Breta í Icesavemálinu. Þeir hefðu mátt vita að þessir innlánsreikningar voru meingallaðir. Sérstaklega Hollendingar þegar reikningarnir opnuðu þar í landi í maí 2008.
Til þeirra var stofnað af banka sem ekki gat lengur fjármagnað sig með lánsfé – hafði ekki slíkt traust – og reyndi því að nota þessa aðferð sem annar bankastjórinn kallaði „tæra snilld“.
Tæplega voru bankastjórnendurnir svo skyni skroppnir – Sigurjón Þ. Árnason með sína menntun í áhættustjórnun – að þeir gerðu sér ekki grein fyrir því að ef allt færi á versta veg væri enginn til að bakka upp þessa starfsemi nema íslenska ríkið.
Það er skjalfest og líka fest á filmu hvernig Björgvin G. Sigurðsson, Jón Sigurðsson, Jónas Fr. Jónsson, Davíð Oddsson, yfirmenn bankamála á Íslandi, héldu því fram allt undir það síðasta að kerfið hérna væri traust. Engar vísbendingar eru heldur um að þeir hafi gert neitt sem skiptir máli til að ráða bót á vandanum.
Þannig að annað hvort sögðu þeir ósatt eða voru svona miklir græningjar. Nema hvort tveggja sé.