Icesave samningur er kynntur. Hann er mun hagstæðari en hinir fyrri – og kannski eðlilegt að spurt sé hvernig stóð á því að samþykktir voru samningar sem voru svo miklu verri og hvers vegna var talið svo bráðnauðsynlegt að þeir næðu í gegn?
Í besta falli virðist þetta bera vott um rangt stöðumat – sem er kannski skiljanlegt í því fári sem ríkti eftir hrunið. Vextirnir lækkuðu eftir því sem fleiri tilraunir voru gerðar. En það er líka spurning um óheilindi – hvernig gátu menn til dæmis reynt að halda því fram að Svavarssamningurinn væri góður? Hvað eða hverja var verið að vernda?
Sama kvöld og samningurinn er kynntur er birtur í fréttum úrdráttur úr skýrslu frá sérstökum saksóknara sem sýnir að fölsunum og blekkingum var beitt við bókhald Landbankans.
Án þessa athæfis hefði bankinn ekki komist upp með að safna öllum Icesave innlánunum í Bretlandi og Hollandi.
Þau voru semsagt svikamylla. Grandalaust fólk sem lagði fé inn á þessa reikninga var platað – og það voru Íslendingar líka sem lentu í að taka skellinn af þessu.
Er þá ekki tími til að sækja stjórnendur og eigendur Landsbankans til saka vegna þessa og krefja þá skaðabóta?
Hér er frétt Ríkisútvarpsins frá því í kvöld þar sem segir meðal annars:
„Endurskoðendur gamla Landsbankans lögðu blessun sína yfir falska reikninga, samkvæmt nýrri norskri skýrslu. Starfsleyfi bankans hér og erlendis var undir. Koma hefði mátt í veg fyrir mörg hundruð milljarða innlánasöfnun á Icesave-reikninga í Bretlandi og Hollandi.
Skýrslan var unnin af norskum sérfræðingum fyrir sérstakan saksóknara að frumkvæði Evu Joly. Norðmennirnir fullyrða að uppgjör bankans fyrir árið 2007 hafi gefið falska mynd af stöðunni. Landsbankinn hafi beitti svikum og blekkingum til að fegra stöðu sína.
Augljóslega tengdir aðilar hafi ekki verið tengdir saman í bókum bankans, veð fyrir lánum verið léleg, áhætta stórlega vanmetin, bókhaldsgögn gloppótt og búinn hafi verið til falskur hagnaður.
Flókið net fyrirtækja í gegnum skattaparadísir og aflandseyjar hafi svo tryggt Björgólfsfeðgum óskoruð yfirráð yfir bankanum.
Bankinn hafi í raun ekki uppfyllt skilyrði starfsleyfis síns í árslok 2007. Landsbankinn hefði því átt, rétt eins og Glitnir á sama tíma, að leita á náðir Fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt skýrslunni gaf endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers hins vegar ítrekað út heilbrigðisvottorð til handa Landsbankanum, bæði með því að árita uppgjörin, og eins með sérstökum yfirlýsingum.
Með þetta upp á vasann hafi bankinn bæði gefið út skuldabréf og safnað innlánum, meðal annars á Icesave-reikninga í Bretlandi, og ekki síður í Hollandi, en þar fór innlánasöfnunin ekki á flug fyrr en vorið 2008.“