Mjög óvenjuleg staða gæti verið að koma upp í íslensku stjórnkerfi.
Á eftir verða kynntir nýir Icesave samningar. Enn er ekki komið í ljós hvort þeir eru vondir eða góðir – og svo er auðvitað spurningin sem hverfur ekki, hvort við eigum yfirleitt að borga þetta?
Ríkisstjórnin mun sjálfsagt mælast til þess að þeir verði samþykktir og reyna að koma þeim gegnum þingið.
Það er spurning hvað stjórnarandstaðan gerir – hvort til dæmis Sjálfstæðisflokkurinn er á móti?
En líklegt er að samningarnir verði samþykktir á Alþingi.
Lykilatriðið í þessu er hvað Ólafur Ragnar Grímsson gerir.
Mun hann telja þennan samning nógu góðan til að skrifa undir lög sem fullgilda hann?
Eða neitar hann að skrifa undir í annað sinn og vísar málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu?
Og þá er spurningin hvað ríkisstjórnin er að gera: Hefur hún eitthvert samband við forsetann til að kanna hvað hann hyggst fyrir? Getur hún haft slíkt samband? Er eðlilegt að ríkisstjórnin fari í einhvers konar samningaumleitanir við forsetann?
Það væri þá allavega ný staða í stjórnkerfinu hér.
Eða þarf stjórnin eins og við hin að bíða með öndina í hálsinum fram yfir áramót til að sjá hvort hann skrifar undir – og vita kannski ekkert um hvað hann hyggst fyrir?