Ég fékk stóra bók í jólagjöf og datt ofan í hana.
Hún nefnist Alheimurinn og er í ritstjórn Martin Rees sem er konunglegur stjörnufræðingur í Bretlandi og rektor Trinity College í Cambridge.
Einhvern veginn hef ég ekki velt alheiminum mikið fyrir mér síðan ég var strákur. Og hugmyndir manna um hann hafa líka talsvert breyst síðan þá.
Nú les maður að alheimurinn sé talinn vera 13,7 milljarða ára gamall og að á milli sumra hluta hans séu milljarðar ljósára.
Tunglið er aðeins 1,3 ljóssekúndur frá okkur – svo menn geri sér hugmynd um stærðina.
Alheimurinn gæti reyndar verið óendanlegur, en við getum einungis skoðað það svæði þaðan sem ljós hefur náð til jarðarinnar síðan alheimurinn varð til.
Við búum i stjörnuþokunni Vetrarbrautinni, erum örlítill hluti af henni, en í henni eru sagðar vera 200 milljarðar stjarna – Vetrarbrautin er meira en 100.000 ljósár að þvermáli. Í miðju hennar er gríðarstórt svarthol.
Eitt sinn var talið að Vetrarbrautin væri allur alheimurinn. Nú er því haldið fram að mælanlegur hluti alheimsins geymi meira en hundrað milljarða stjörnuþoka.
Þetta er semsagt ógnarstór heimur, miklu stærri en maður getur skynjað eða gert sér í hugarlund – og hugmyndir um miðlæga stöðu mannsins, trú og heimspeki, allt það getur orðið dálítið hjárænulegt í þessu samhengi.
Það rifjast upp fyrir manni kvæði Hannesar Péturssonar um stjörnufræðingin Kóperníkus sem
hjó þessa jörð af feyskinni rót og henti
sem litlum steini langt út í myrkur og tóm.