Vince Cable varð vinsæll og dáður meðal Breta þegar hann sagði fyrir um yfirvofandi fjármálakreppu. Hann hefur heldur ekki vandað fjármálastofnunum kveðjurnar í gegnum tíðina.
Nú er hann í þeirri lítt öfundsverðu stöðu að vera viðskiptaráðherra úr flokki Frjálslyndra demókrata í samsteypustjórn þar sem Íhaldsflokkurinn ræður hérumbil öllu.
Cable missti það út úr sér í gær að hann gæti fellt ríkisstjórnina með því að ganga út ef hann fengi ekki að birta upplýsingar um laun bankamanna.
Bónusar og launagreiðslur til bankamanna hafa lengi verið tilefni til hneykslunar í Bretlandi. Þetta er eitt af þeim málum sem ekki virðist eiga að taka á, á sama tíma og boðaður er stórfelldur niðurskurður sem mun hafa í för með sér atvinnuleysi og alls kyns hremmingar.
Verkalýðsforingjar í Bretlandi segja að aftur muni renna upp tíma verkfalla og vinnu deilna.
En fjármálalífið í City er sem fyrr heilög kýr í Bretlandi. Og Frjálslyndir demókratar engjast í ríkisstjórninni – Cable sjálfur lýsir stjórnarsamstarfinu við að „eiga í styrjöld“.