Sigrún Davíðsdóttir flutti pistil í Speglinum í gær um Icelandic Group, glórulaust tap þess fyrirtækis á tíma Björgólfs Guðmundssonar, fyrirgreiðslu úr Landsbankanum, lífeyrissjóði og Existu – og dekurrófur bankakerfisins eins og Sigrún nefnir það. Í pistlinum segir meðal annars:
— — —
„Nýlega var Brynjólfur Bjarnason gerður að stjórnarformanni Icelandic. Eins og kunnugt er lét Brynjólfur nýlega af störfum sem forstjóri Skipta, lykilfyrirtækis í Existuveldinu. Í nauðasamningum Existu var Skipti talið einskis virði, félagið er þó enn til en skuldirnar námu í ársbyrjun 95 milljörðum króna.
Skipti komu við sögu í einni athyglisverðustu lánafléttunni rétt fyrir hrun þegar Landsbankinn lagfærði stöðu Fons með láni upp á 50 milljarða í Styttu, eignalausu skúffufélagi sem var stofnað sumarið 2008 til að taka við skuldum sem var ekki lengur hægt að hlaða á Fons. Skipti var eitt fimm félaga, öll tengd stærstu umsvifaaðlinum, sem Glitnir gekk frá ábyrgðaryfirlýsingum við í tengslum við Styttu-lán Landsbankans. Margir lífeyrissjóðir voru í miklu viðskiptum við Existu og tengd félög og þau viðskipti eiga þátt í tapi lífeyrissjóðanna.
Því heyrist stundum fleygt að það eigi ekki að dvelja við fornsögur úr viðskiptalífinu sem var heldur horfa fram á veginn. En það er ekki alveg svona einfalt. Fortíðin býr í félögum eins og Icelandic og enn frekar með nýja stjórnarformanninum. Með eign sinni í Icelandic eru lífeyrissjóðirnir sem eiga Framtakssjóðinn orðnir nátengdir fornsögunni um Icelandic. En sjálfir lífeyrissjóðsþegarnir eru þó ekki svo nátengdir Framtakssjóðnum að þeir geti auðveldlega haft þar áhrif.“