Í Kiljunni annað kvöld verður meðal annars fjallað um ljósmyndabækur sem eru að koma út nú fyrir jólin. Þetta eru bækurnar Andlit eftir Jónatan Grétarsson, Poppkorn eftir Sigurgeir Sigurjónsson, en einnig verður stuttlega fjallað um hina marglofuðu bók Ragnars Axelssonar, Veiðimenn norðursins.
Í bók Jónatans eru myndir sem hann hefur tekið af íslenskum listamönnum, hann hyggst halda þeirri skrásetningu áfram. Í bók Sigurgeirs eru aðallega myndir sem hann tók af hljómsveitum og ungu fólki á bítlatímanum.
Tveir ungir höfundar koma í þáttinn, það eru þær Yrsa Þöll Gylfadóttir og Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir sem eru að senda frá sér fyrstu skáldsögur sínar. Bók Yrsu nefnist Tregðulögmálið en bók Hugrúnar heitir Stolnar raddir.
Við fjöllum einnig um stórvirki Helga Hallgrímssonar, Sveppabókina, sem er tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Illugi Jökulsson og Þorgerður E. Sigurðardóttir ræða um fjórar bækur: Jón eftir Ófeig Sigurðsson. Önnur líf eftir Ævar Örn Jósefsson, Hið dökka man eftir Þórarin Þórarinsson og Jakob Bjarnar Grétarsson og Kjarna málsins, en það eru fleyg orð í samantekt Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.
En Bragi segir frá Þorsteini Kjarval sem var stór hluthafi í Eimskipafélagi Íslands og bróðir Jóhannesar listamanns.