Útlend aðstoð er að reynast okkur vel eftir hrunið og spurning hvort við hefðum ekki þurft að leita til erlendra aðila í fleiri málum. Það er ekki alltaf sniðugast að hringja bara í gamla vininn eða kommissarinn úr flokknum – hvort hann heitir Svavar Gestsson eða Baldur Guðlaugsson.
Það er að miklu leyti Evu Joly að þakka að embætti sérstaks saksóknara er orðið öflugt – nýjar skýrslur um bankana koma þaðan. Vonandi ber saksóknarnum gæfa til að fylgja þessu almennilega eftir.
Lee Bucheit virðist hafa verið réttur maður til að leiða Icesave samninganefndina. Hann er alþjóðlegur sérfræðingur í skuldum ríkja sem er stofnað til með vafasömum hætti. Hefur meðal annars fjallað um skuldir sem harðstjórar í þriðja heiminum hafa stofnað til.
Margir útlendingar töluðu líka máli Íslands í Icesave og það hefur hjálpað, þar má nefna Evu Joly, Martin Wolf hjá Financial Times, Alain Lipietz, Ann Pettifor og fleira fólk sem ég man ekki að nefna í augnablikinu.
Kannski hefðum við betur farið eftir ráðum Svíans Mats Josefsson um endurreisn bankanna, þá væri máski minni tortryggni í samfélaginu? En ráðleggingar hans gleymdust fljótt.
Og hugsanlega hefði verið ráð að þiggja á sínum tíma aðstoðina sem Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka, bauð fram frá alþjóðlegum seðlabönkum til að vinda ofan af íslenska bankaruglinu?
Ísland er lítið land og umræðan hér er oft býsna þröng og staglkennd. Við höfum reyndar ákveðna tilheneigingu til að telja okkur vita allt betur – og það er dapurt hversu illa fjölmiðlar fylgjast með erlendum málefnum. Við erum nefnilega ekki alltaf ein á báti – oft eru fjöldamörg lönd sem eru að fást við svipuð vandamál og sitthvað sem við getum lært af þeim.