Lífeyrissjóðirnir íslensku eru mjög sérstakir. Nú er komið í ljós að þeir ætla ekki að taka þátt í fjármögnun á vegaframkvæmdum eins til stóð. Mikið af stjórn hagkerfisins í dag fer fram í samningaviðræðum við forstjóra lífeyrissjóða. Völd þeirra eru feikilega mikil.
Lífeyrissjóðirnir hafa ávöxtunarkröfu upp á 3,5 prósent. Það þýðir að þau mega ekki leggja peninga í verkefni sem eru talin óarðbærari.
Hins vegar hefur það sýnt sig að ef einhver labbar inn í lífeyrissjóð og segist geta lofað meira en 3,5 prósenta ávöxtun – að þá opnast peningagáttirnar.
Þannig var það allavega fyrir hrun. Bara að segja það, þá komu peningarnir.
Sérstaklega ef áttu í hlut vildarvinir lífeyrissjóðanna í fjármálageiranum.
Þannig var Lífeyrissjóður verslunarmanna til dæmis rekinn eins og deild í Kaupþingi.
Nú vitum við ekki hverju lífeyrissjóðirnir töpuðu á hruninu. Hreinskilnisleg rannsókn á þeim fer ekki fram – og er kannski ekki heldur að vænta. Slíkt er einhvern veginn í andstöðu við stjórnkerfið sem sjóðirnir hafa komið sér upp. Stjórnendur lífeyrissjóða þola heldur ekki gagnrýni.
En það er talað um lífeyrissjóðina sem sparnað landsmanna, sérstaklega var það gert þegar talað var um að þeir kæmu að því að lina aðeins skuldaáþjánina. Og jú, þeir eru það að vissu leyti.
Við borgum þangað inn ofboðslega fjárhæðir – sem eru í raun jafngildi skattheimtu, því við eigum ekki val – en vitum í raun ekkert hvað við fáum út úr því eða hvort við fáum yfirleitt eitthvað.
Því þetta eru í rauninni tryggingar fremur en sparnaður – tryggingar sem eru ekkert sérlega öruggar og veita kannski ekki svo góða þjónustu eins og til dæmis má lesa í þessari grein Ólafs Margeirssonar hagfræðings
Það er villandi að tala um lífeyrissjóðina sem sparnað – því skynsamur maður sem ávaxtaði svo stóran hlut af tekjum sínum af viti í fjóra eða fimm áratugi, sem er vinnuævi einstaklings, ætti að bera meira úr býtum af sparnaði sínum, fyrir sig og fjölskyldu sína.