Ég hef stundum fjallað um flokksræðið sem tröllreið öllu í stjórnmálum á Íslandi – og hefur að sumu leyti gert alveg fram á þennan dag. Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn skiptu með sér gæðum landsins, Framsókn hafði taumhald á bændastéttinni í gegnum samvinnufélögin, Sjálfstæðisflokkurinn ríkti í þéttbýlinu og aðallega þó í Reykjavík. Flokkarnir skiptu bróðurlega með sér hermanginu, en Alþýðuflokkurinn fékk stundum að vera með. Sósíalistar sjaldnar þótt þeir hafi fengið einn og einn bankastjóra.
Valdakerfi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er skilmerkilega lýst í ævisögu Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Th. Jóhannesson:
„Flokksvélin mikla var í meginatriðum óbreytt: Reykjavík var skipt í 120 umdæmi og voru að jafnaði 5-10 fulltrúar í hverju þeirra (samtals 654 snemma árs 1957). Þeir skráðu stjórnmálaskoðanir nágranna sinna og voru þær upplýsingar færðar í skrár í Valhöll, höfuðstöðvum flokksins við Suðurgötu. Svo kappsamir voru þeir Baldvin [Tryggvason] og Birgir [Kjaran] að þeir þekktu fulltrúana nær alla með nafni og mundu jafnvel símanúmer þeirra. Á vinnustöðum kom öflugt trúnaðarmannakerfi einnig að gagni. Þar fylgdust sjálfstæðismenn með spjalli félaganna um daginn og veginn og komu sjónarmiðum þeirra í stjórnmálum á framfæri í Valhöll. Stefndi flokkurinn að því að hafa trúnaðarmenn í öllum fyrirtækjum með fleiri en tíu í starfsliði og skyldi sérhver þeirra vera „trúverðugur og dugandi maður“ (árið 1957 átti Sjálfstæðisflokkurinn 392 skráða trúnaðarmenn á vinnustöðum).“ (bls. 260-261)