Það er að koma betur og betur í ljós að bankarnir voru byggðir upp á stórfelldum fjársvikum.
Stöð 2 skýrði frá því í kvöld að Kaupþing hefði lánað 800 milljarða króna til skúffufyrirtækja út um allan heim sem höfðu engan rekstur.
800 milljarða!
Rekstur Landsbankans virðist hafa byggt á fölsuðu bókhaldi – þar sem endurskoðendur mökkuðu með.
Þetta þýðir einfaldlega að allt sem var gert í bankanum eftir það er svik: Skuldabréfaútgáfa, söfnun fjár í peningamarkaðssjóði, Icesave.
Ef bókhaldið hefði verið fært af trúmennsku hefði enginn keypt skuldabréf, enginn sett peninga í bankann, enginn lagt inn á Icesave-reikningana.
Eftir því sem maður heyrir hefði Glitnir átt að loka strax 2006 eða 2007.
Því verður varla trúað að endurskoðunarstofurnar geti haldið áfram að skreyta sig með fínum nöfnum erlendra endurskoðunarfyrirtækja – ekki að þau séu sérlega hvítþvegin heldur.
Og það er svo stór spurning hvað íslenska fjármálaeftirlitið var að gera á þessum tíma.