Það er ótrúleg hugmynd hjá útrásarvíkingnum Heiðari Má Guðjónssyni að DV sá ábyrgt fyrir því að hann náði ekki að komast yfir Sjóvá.
DV hefur ekki gert annað en að flytja fréttir af viðskiptum Heiðars og viðskiptaáætlunum.
Það er ekki líklegt að neitt verði úr þessari málsókn Heiðars. Dómstóll vísar henni líklega frá að lokum.
En tilgangurinn er líka að hræða fjölmiðla frá því að fjalla um útrásarvíkinga. Pálmi Haraldsson hefur notað sömu taktík – hann er sífellt að hóta málsóknum.
Það er líka greinilegt að útrásarvíkingar eru að fá sjálfstraustið aftur. Fólk á fjölmiðlunum skynjar það. Það er oftar haft samband og kvartað undan fréttaumfjöllun. Oft er það gert á mjög agressífan hátt.
Þetta minnir á árin fyrir hrunið þegar mátti ekki halla orði á bankana í fjölmiðli án þess að einhver talsmaður fjármálamannanna væri búinn að hringja og kvarta.
Svo er það Landbankinn. Bankastjórarnir Sigurjón Árnason og Halldór J. Kristjánsson eru krafðir um himinháar fjárhæðir, en eigendurnir ekki. Stóðu þeir þó í því að hreinsa bankann að innan – eins og lesa má í rannsóknarskýrslu Alþingis.
Það er reyndar merkilegt að lesa það álit slítastjórnar Landsbankans að stórfelldar blekkingar hafi veirð stundaðar undir lokin.
„Herdís segir að slitastjórnin telji meðal annars að skráning bankans á eigin hlutum hafi verið röng, og þar með hafi opinberar tölur um eiginfjárhlutfall bankans verið rangar. Jafnvel hafi eiginfjárhlutfall bankans verið komið langt niður fyrir lögbundin mörk löngu áður en bankinn hafi fallið.“
Hvernig lítur Icesave út í þessu sambandi – er hægt að tala um nokkuð annað en stórfelld fjársvik og bókhaldsfals?