Það líður að frumsýningu heimildarmyndar Gauks Úlfarssonar um framboð Besta flokksins.
Gaukur kvikmyndaði kosningabaráttuna, fylgdi Jóni Gnarr hvert fótmál. Kannski komumst við eitthvað nær um það í myndinni hvað vakti fyrir Jóni.
Það mun vera talsverður titringur í ráðhúsinu vegna myndarinnar, það hefur verið lagt hart að Jóni og Gauki að klippa atriði úr myndinni – en Jón hefur svarað því til að hann hafi ekkert vald til þess.
Aðalgagnrýnin sem beinist að Jóni Gnarr þessa dagana er hvað hann sé óprófessjónel borgarstjóri – og stjórnmálamaður. En bjuggust menn við því að hann færi strax inn í rulluna, yrði eins og allir hinir?
Það má reyndar vel vera að þetta verði honum að falli á endanum – munurinn á því hvernig stjórnmálin eru í raun og veru og hvernig hann vill hafa þau. Því það er ljóst að Jón hefur ekki þolinmæði gagnvart öllu sem borgarstjórar eru vanir að fást við.
Jón svarar fullum hálsi í Fréttatímanum í dag þar sem þeir tala um klækjastjórnmál og plott harðsvíraðra pólitíkusa sem telja hann vera hálfvita.