Þau eru athyglisverð ummæli Björgvins G. Sigurðssonar sem segist vilja stofna frjalslyndan flokk á miðjunni – með fólki úr Framsókn og Sjálfstæðisflokknum.
Björgvin kemur úr Alþýðubandalaginu upprunalega. Ferðalag margra sem þar voru er orðið býsna langt – ég kallaði það einu sinni hraðlestina til hægri.
Ingibjörg Sólrún var líka í þessari lest, þótt hún væri reyndar úr Kvennalistanum, og Össur Skarphéðinsson og Árni Páll Árnason.
Einu sinni var helsta hugsjón þessa fólks að sameina vinstri menn í einn flokk. Það tókst ekki, en Samfylkingin var þó til, sem er stærsti flokkur landsins miðað við þingmannatölu auk þess sem flokkurinn er áhrifamikill í bæjarstjórnum víða um land.
Í ríkisstjórn vinnur hann með Vinstri grænum – í stjórn sem kennir sig við norræna velferð og vinstrimennsku.
En þá þykir Björgvini tímabært að fara að teygja sig til hægri – og mæla með stofnun flokka í þá áttina sem hraðlestarfólkið gæti farið í. Nú segir hann þetta vera „verkefni sinnar kynslóðar vinstra megin við miðju“.