Svavar Gestsson heldur því fram í grein í Fréttablaðinu í dag að Ólafur Ragnar Grímsson ætli sér að sitja eitt kjörtímabil í viðbót sem forseti.
Það má minna á í því sambandi að aldrei hefur komið fram „alvöru“ framboð gegn sitjandi forseta á Íslandi. Að því leyti hefur embættið að sumu leyti konunglegt yfirbragð – forseti hefur getað setið eins lengi og hann vill.
Reyndar gæti það breyst ef Ólafur Ragnar sækist eftir endurkjöri. Þá gætu einhverjir freistað þess að fella hann – honum tókst að ná upp vinsældum sínum með því að neita að skrifa undir Icesave, en framganga hans á útrásartímanum er varla alveg gleymd.
En Svavar segir í grein sinni:
„Ólafur Ragnar hefur setið í 16 ár, fjögur kjörtímabil. Hann gengst upp í því að setja söguleg met. Hann mun bjóða sig fram til fimmta kjörtímabilsins og hann hefur fundið pottþétta aðferð til að tryggja sér kosningu: Hann setur erfið mál í þjóðaratkvæði.“