Ég sá á Facebook að Guðmundur Magnússon sagnfræðingur hafði horft á Silfrið og fór að velta fyrir sér í framhaldi af því hvort stjórnlagaþingskosningarnar gætu haft meiri áhrif en margan grunar.
Hann nefndi að þarna hefði mikill fjöldi fólks stigið sín fyrstu skref í stjórnmálum, fengið nokkra skólun í pólitík – margt af því gæti hugsanlega látið að sér kveða í framtíðinni.
Mér hafði reyndar dottið það í hug áður að upp úr stjórnlagaþinginu gæti jafnvel risið nýr stjórnmálaflokkur eða stjórnmálaflokkar. Það er alls ekki óhugsandi að fólk sem nær saman á þinginu gæti sameinast um að hafa frumkvæði að slíku.
Þannig að þingið getur haft áhrif á ýmsan hátt.
Umræðan er dálítið skrítin. Margir tala eins og þetta sé voða högg fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur. En hún er auðvitað algjört aukaatriði í málinu.
Stjórnlagaþingið kemur saman í febrúar. Það getur vel verið að allt leysist upp í vitleysu, vantrausti og flokkadráttum. En það getur líka verið að sæmilegur einhugur myndist á þinginu – að það leggi drög að stjórnarskrá í þjóðaratkvæði eins og það hefur vald til að gera.
Þá gæti líka komið upp einkennileg staða – togstreita milli stjórnlagaþingsins og Alþingis.
Þetta ferli er nefnilega rétt að hefjast.