Það eru fjöldamótmæli á Írlandi. Stjórn valdaflokksins gamla Fianna Fail riðar til falls. Sinn Fein, sem byggir á gamla lýðveldishernum, vinnur þingsæti í aukakosningum. Það er upplausnarástand í írskum stjórnmálum líkt og hefur ríkt hér á Íslandi. Maður öfundar ekki Íra að þurfa að feta þessa sömu braut eftir langt skeið þar sem þeir héldu að þeir væru búnir að sigrast á efnahagsvandræðum, fátækt og sundurlyndi sem höfðu lengi hrjáð þessa þjóð.
En það er ekki þetta Írland sem ég ætla að fjalla um, heldur annað Írland – land söngvanna.
Patrick Kavanagh hét írskt skáld og dykkjumaður – hvað annað? – sem var uppi frá 1904 til 1967. Hann er eitt ástsælasta skáld Írlands. Frægasta kvæði hans heitir Raglan Road. Það er nefnt eftir götu í Dyflinni – þetta er geysilega fagurt ástarkvæði með sterkum myndlíkingum.
Kavanagh hitti Luke Kelly, snaggaralegan rauðhærðan krulluhaus, á krá og þeir fundu út að ljóðið væri hægt að syngja við gamalt þjóðlag. Úr varð bragur sem Kelly gerði frægan með hljómsveit sinni The Dubliners. Söngur Kellys er einstakur sem og meðferð hans á kvæðinu – Kelly er líka í hópi þjóðhetja á Írlandi, en hann var aðeins 43 ára þegar hann lést.
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=kBndHNJoC0k&feature=related]
Fleiri hafa sungið lagið, eins og Sinéad O´Connor, Mark Knopfler og Van Morrison. Hann flutti það með írsku þjóðlagasveitinni The Chieftains á frábærri plötu sem nefnist Irish Heartbeat. Morrison er yfirlýstur aðdáandi skáldsins Kavanaghs og það má greina áhrif frá honum í textum söngarans.
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=hNe4CgUZJGw&playnext=1&list=PL99D471C405F5F692&index=30]