Guardian segir að Ísland sé að gera einstæða tilraun með beint lýðræði með því að kjósa til stjórnlagaþings.
Kjörsóknin lofar samt ekki góðu um áhugann – það er ljóst ef hún verður svona slök hefur stjórnlagaþingið máttlausara umboð en ella.
Það breytir því þó ekki að því er falið að endurskoða stjórnarskrána og getur – ef svo ber undir – boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu sína.
Að því leyti getur stjórnlagaþingið haft mikil áhrif. Það verður heldur ekki hægt að leysa það upp og senda heim vegna lélegrar kjörsóknar. Það mun starfa og því verður ekki breytt.
Lítil kjörsókn þýðir auðvitað að atkvæði þeirra sem skiluðu sér á kjörstað vega þyngra en ella. Það er sagt að unga fólkið kjósi ekki – er það vegna doða eða vegna þess að það veit ekki af kosningunum eða skilur ekki út á hvað þær ganga?
En þessi tilraun Íslendinga er að vekja talsverðan áhuga erlendis. Á Írlandi, sem gengur í gegnum svipaðar hremmingar og Ísland, er mikið rætt um nauðsyn þess að breyta stjórnarskránni.