Það verður ekki fyrr en á þriðjudag að mér skilst að úrslit verða ljós í stjórnlagaþingskosningunni.
Málið verður komið á nýtt stig þegar ljóst er hverjir þingfulltrúar verða.
Þingið á að koma saman í febrúar 2011 og sitja í tvo til fjóra mánuði. Manni finnst ótrúlegt annað en að þingtíminn verði fullir fjórir.
Þingið verður skipað 25 til 31 fulltrúa, það ræðst af því hver kynjahlutföllin verða í kosningunni.
Þingið verður haldið fyrir opnum dyrum – þannig að þjóðin getur fylgst með.
Svo verður spennandi að sjá hversu fljótt þingið tekur á sig einhvers konar mynd hefðbundinna stjórnmála.
Það er ekki ósennilegt að fljótt myndist einhvers konar fylkingar. Það verða flokkadrættir. Þeir sem hafa svipaðar skoðanir hópa sig saman – þetta er eiginlega óhjákvæmilegt.
Það gæti verið fylkingin sem vill gera miklar breytingar á stjórnarskránni og fylking sem vill gera litlar breytingar.
Fylking sem vill setja ströng auðlindaákvæði í stjórnarskrána og hin sem vill að slík ákvæði séu lítilvæg eða mjög almennt orðuð.
Það er spurning hvaða áhrif ESB umsóknin hefur á svona þingi. Verða þarna einhverjir þingfulltúar sem vilja beinlínis reyna að koma í veg fyrir að ESB aðild sé möguleg með því að setja inn ströng fullveldisákvæði í stjórnarskrána?
Eða næst kannski sátt um allar meiriháttar ákvarðanir sem snerta fullveldið skuli fara í þjóðaratkvæðagreiðslu?
Því hefur verið haldið fram með góðum rökum að samþykkt EES samningsins á sínum tíma hafi verið stjórnarskrárbrot.
Auðvitað hefði átt að halda þjóðaratkvæðageiðslu um það mál.
Og líka Nató aðildina 1949.
Eins er það með ESB. Það er óhugsandi að ganga þar inn fyrr en að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Sumir hafa talað um að hún muni ekki verða bindandi fyrir þingið, en ég vildi sjá framan í þann stjórnmálamann sem reyndi að smygla Íslandi inn í ESB að eftir nei í þjóðaratkvæðagreiðslu.