Írska stjórnmál nötra vegna skuldavanda landsins, það er ekki ólíklegt að verði boðað til kosninga innan tíðar og að aðalstjórnarflokkurinn Fianna Fáil bíði afhroð. Græningjar sem sitja líka í stjórninni vilja fá kosningar. Fianna Fáil gæti jafnvel misst lykilstöðu sína í írskum stjórnmálum.
Flokkurinn er sannkallaður valdaflokkur á Írlandi. Hann hefur verið samfellt í stjórn frá 1987 og alls í 53 ár af 84 ára sögu sinni. Styrkur flokksins hefur löngum verið hvað hann hefur breiðan stuðning víða í írsku þjóðfélagi, en hann er, líkt og írska stjórnmálakerfið lengi vel, sprottinn upp úr sjálfstæðisbaráttunni við Breta.
Írska ríkisstjórnin hefur tekið á sig björgunarpakka frá Evrópusambandsríkjum – Bretlandi meðtöldu – sem hjóðar upp á 90 milljarða evra í lán. Á móti verður gripið til alls kyns aðhaldsaðgerða næstu fjögur árin.
Horfurnar eru sannarlega ekki bjartar.
Stærsta spurningin við þetta er hversu langt á að ganga til að bjarga fjármálastofnunum sem eru í nánast gjaldþrota. Bankar hafa verið þjóðnýttir í reynd – og því eru skuldir þeirra að falla á írska ríkið. Enginn vill lána þeim peninga nema ríkið hafi milligöngu. Og þarna kemur inn í spurningin um evrusvæðið – hvort þrot írska bankakerfisins gæti veikt það mjög og þá sérstaklega lönd eins og Spán og Portúgal sem eiga þegar í miklum efnahagsörðugleikum.
En auðvitað er óþolandi fyrir írska skattgreiðendur að borga skuldir banka sem þöndust út á óráðsíutíma – á Írlandi rétt eins og víðar gekk yfir ógurlegt þensluskeið með lágum fjármagnskostnaði og húsnæðisverð hækkaði feiki mikið. Írska ríkið missti stjórn á bönkunum og húsnæðismarkaðnum, en á sama tíma voru ríkisfjármálin í sæmilegu lagi – rétt eins og á Íslandi. En líkt og hér hefur ríkið þolað tekjufall við efnahagshrunið.
Guardian vitnar í hagfræðinginn Andrew Cass sem segir að það sé kominn tími til að viðurkenna tapið í bankageiranum og afskrifa skuldir á kostnað lánadrottna fremur en að velta byrðunum á launþega. Banki eins og Allied Irish sé ekki lengur nema tóm skel.
Íslendingar fóru þá leið að skera skuldir bankanna burt að miklu leyti. Við þetta töpuðu erlendir kröfuhafar geysilegum fjármunum. Það má reyndar segja að hefði íslenska ríkið tekið á sig þessar skuldir hefði einfaldlega þurft að loka landinu – sá síðasti burt hefði þá getað slökkt ljósin. Stærð skuldanna var svo óskapleg miðað við þjóðarframleiðslu. Íslensku bankarnir voru endurræstir undir nýrri kennitölu, kröfuhafar tóku yfir tvo þeirra en sá þriðji er enn í eigu ríkisins.
Á móti kemur að íslenska krónan hrundi og að vandanum var að því leyti velt yfir á íslenskan almenning í formi verðbólgu og stórhækkaðra skulda.
Ástandið á Írlandi og Íslandi er ekki ólíkt eftir langt þensluskeið í báðum löndunum. Það hefur orðið mikil lífskjaraskerðing, stóraukið atvinnuleysi – og svo er farið að bera á landflótta. Á Írlandi hefur landflótti verið viðvarandi í hátt í tvær aldir, á Íslandi hafur hann sjaldnast verið vandamál.
Svo er spurningin hvort evran lifir þetta af og þá í hvaða mynd? Mun framtíðin bera í skauti sér tvöfalt evrusvæði þar sem velstæð ríki eins og Þýskaland, Svíþjóð, Danmörk og Frakkland hafa sinn gjaldmiðil – en lönd eins og Írland, Grikkland, Spánn, Portúgal og Ítalía annan? Eitt af því sem menn óttast liðist evrusvæðið í sundur er tími gagnkvæmra gengisfellinga, endurtekning á því sem var á seyði eftir olíukreppuna á áttunda áratugnum þegar ríki felldu gengið í kapp til að reyna að styðja við útflutning sinn. Evrópusambandsríki settu loks upp sérstakt kerfi gjaldmiðla til að koma í veg fyrir þetta. Það endaði með stofnun evrunnar – sem nú er í talsverðri hættu.