Flugfargjöld til og frá landinu eru hrikalega dýr eftir hrun krónunnar. Sérstaklega finna Íslendingar fyrir þessu sem þurfa að nota þennan fallna gjaldmiðil.
Hugmyndir um að leggja gjöld ofan á farseðla til að borga fyrir náttúruvernd eru ekki góðar. Stór hluti þeirra sem flýgur til landsins er ekki að fara að skoða náttúruperlur. Þarna eru Íslendingar í alls kyns erindagjörðum, útlendingar í viðskiptaferðum, vegna menningar eða menntasamstarfs.
Til hvers ætti þetta fólk að vera að borga fyrir gangstíga í Landmannalaugum eða við Gullfoss?
Nei, þá er mun eðlilegra að þeir borgi sem ferðast á þessa staði, hvort sem það er í formi inngangseyris eða kannski bílastæðagjalda.
Það er líka vandinn við gjaldtöku af þessum toga að ríkinu hættir til að nota hana mjög frjálslega. Maður veit ekki fyrr en farið er að nota hana í eitthvað allt annað en ætlað var. Þannig er það til dæmis með útvarpsgjöldin, þau hafa ekki lækkað en hins vegar fær Ríkisútvarpið minna en áður því ríkið er farið að taka peningana í önnur verkefni.