Manfred Ertel skrifar um vandræði Grikklands í Der Spiegel. Vandamálin felast fyrst og fremst í ofboðslegri spillingu, klíkustarfsemi, frænd- og vinahygli og stjórnmálaflokkum sem eru notaðir útdeila gæðum til flokksmanna. Dómskerfið er lélegt vegna klíkuráðninga, ótrúlegum fjölda ríkisstarfsmanna hefur verið raðað á jötuna í gegnum flokkstengsl, embættismannakerfið er spillt. Það er þetta sem ríkisstjórn Georgs Papandreou þarf að eiga við, hún nýtur stuðnings meirihluta kjósenda, en kerfið er býsna fast fyrir. Sósíalistaflokkur Papandreous á líka sinn hlut í því – því fer fjarri að hann sé saklaus – þótt Nýi lýðræðisflokkurinn sem fór frá völdum með skömm í fyrra hafi verið bíræfnari.
Spiegel nefnir Nikos Kanellopoulos, háttsettan embættismann í menningarmálaráðuneytinu sem er orðinn frægur í Grikklandi. Hann er nú sestur í helgan stein, en á ferli sínum tókst honum að eignast tíu húseignir og ellefu bankareikninga sem innihalda næstum níu milljónir evra. Það virðist ekki vera nein almennileg skýring á því hvaðan allt þetta fé kom.
Umbótastefnan í Grikklandi hefur fengið nafnið kalikratis – og það er lögð mikil áhersla á hún nái fram að ganga. Það er kallað á bætta stjórnarhætti og bætta stjórnmálamenningu. Margir hafa þó hag af því að láta þetta ekki rætast. Dómskerfið er hægt og tregt. Á móti stendur atimoritsia sem er hugtak sem notað yfir bíræfni, að komast upp með hlutina. Í Grikklandi hefur löngum verið borin ákveðin virðing fyrir því – yfirvöld eru ekki hátt skrifuð í landinu.
Stjórn Papandreou náði að halda sjó í sveitarstjórnarkosningum nýlega þrátt fyrir sársaukafullar aðgerðir sem hún hefur þurft að grípa til. Grikkir gera sér upp til hópa grein fyrir því að það þarf að höggva að rótum spillingarinnar í landinu. Grikkir geta ekki bara kennt öðrum um ófarir sínar. En það fjarri lagi að hægt sé að bóka sigur í þessu stríði.