Eitt skemmtilegasta atriðið í Hvíta víkingnum eftir Hrafn Gunnlaugsson er þegar hópur af indíánum situr saman á þingi – gott ef ekki á Alþingi við Öxará.
Hrafn gefur sér semsagt að þeir hafi komið austur um haf með víkingum.
Það var hlegið að þessu atriði á sínum tíma, en nú gæti Hrafn verið að fá uppreist æru.
Sagt er að í genasúpu Íslendinga sé erfðaefni frá indíánakonu frá Nýja heiminum. Og að þessi kona sé formóðir einhverra Íslendinga.
Þetta virkar pínu ótrúlegt við fyrstu sýn, en þá má reyndar geta þess að ferðir norrænna manna sem bjuggu á Grænlandi yfir til heimsálfunnar sem seinna hét Ameríka kunna að hafa verið ögn tíðari en getið er um í heimildum.
Annars skrifar Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur nokkuð skemmtilega grein um þessar rannsóknir.