Á Ítalíu voru prestar lengi í bullandi pólitík. Þeir þrumuðu í prédikunastólum og bönnuðu sóknarbörnum að kjósa kommúnista. Trúað fólk skyldi kjósa Kristilega demókrata.. Frægast var þetta í kosningum 1948 þegar talin var hætta á að kommúnistar kæmust til valda á Ítalíu í lýðræðislegum kosningum.
Þetta er svosem ekki einsdæmi – skilin milli trúar og stjórnmála eru oft óljós.
Nú hefur þjóðkirkjan á Íslandi sent frambjóðendum til stjórnlagaþings bréf þar sem hún óskar eftir svörum um afstöðu þeirra til ríkis og kirkju.
Ég veit ekki hvort margir hafa svarað þessu bréfi, en velti fyrir mér hvað kirkjan ætlar að gera við upplýsingarnar.
Ætla prestarnir nokkuð að þylja upp í prédíkunarstólunum á sunnudaginn hvaða frambjóðendur eru Kristi þóknanlegir?