John Tavener er eitt stórkostlegasta tónskáld sem nú er uppi.
Að hlusta á tónlist eftir hann er stundum eins og að heyra eitthvað ofan úr himinhvelfingunni. Þetta er músík sem kemst nærri því að vera ójarðnesk. Hún útheimtir kyrrð og íhugun.
Það er skemmtilegt að geta þess að það voru Bítlarnir sem áttu þátt í að gera Tavener frægan, fyrstu plöturnar með verkum hans voru gefnar út hjá hinu stórmerka Apple útgáfufyrirtæki þeirra.
Kammerkór Suðurlands hefur gefið út disk með verkum eftir Tavener og heitir hann upp á grísku Iero oneiro – eða Heilagur draumur.
Diskurinn er hreint afbragð og hefur fengið góða dóma í Bretlandi, þetta er ekki tónlist sem auðvelt að flytja, en stjórnunin er í öruggum höndum Hilmars Arnar Agnarssonar, kórstjóra sem lengi var í Skálholti, en er kannski þekktastur fyrir bassaleik með hljómsveitinni Þey.
Verk af disknum verða flutt á tónleikum í Kristkirkju í Landakoti í kvöld, og það er sagt að Tavener sjálfur verði viðstaddur tónleikana – sem þykja tíðindi því maðurinn hefur lengi verið heilsuveill.
Hér er Song for Athene eftir John Tavener. Þetta verk var flutt í útför Díönu prinsessu hér um árið.
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=va-vvHTZmv0&feature=related]