fbpx
Mánudagur 18.ágúst 2025
Eyjan

Gunnar Tómasson: Lífeyrissjóðakerfið

Egill Helgason
Mánudaginn 15. nóvember 2010 12:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Tómasson sendi þennan pistil um íslensku lífeyrissjóðina. Hann er saminn í janúar 2009.

— — —

Íslenzka lífeyrissjóðakerfið

Hrein eign íslenzku lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris var 1.839 milljarðar kr. í lok september, og jafngilti um 125% af áætlaðri vergri þjóðarframleiðslu 2008.  Innlend verðbréfaeign sjóðanna nam 1.254 milljörðum (68%) og erlend verðbréfaeign 517 milljörðum (28%).  Upplýsingar liggja ekki fyrir um heildartap lífeyrissjóðanna vegna hruns íslenzku bankanna og verðfalls á erlendum hlutabréfamörkuðum.  Lauslegur útreikningur minn bendir til þess að tapið kunni að hafa verið um 400 milljarðar og jafngilda um 25% af hreinni eign sjóðanna í árslok 2007.  Þetta samsvarar heildarkostnaði þriggja Kárahnjúkavirkjana.

Íslenzka lífeyrissjóðirnir eru svokallaðir uppsöfnunarsjóðir, sem innheimta og fjárfesta iðgjöld meðlima sinna á ákveðnu æviskeiði til útborgunar síðar í mynd eftirlauna, örorkubóta og annarra samningsbundinna greiðslna.  Annar valkostur við uppbyggingu íslenzku lífeyrissjóðanna hefði verið svonefnt gegnumstreymiskerfi sem er fjármagnað með skatttekjum á hverjum tíma.  Enginn grundvallarmunur er á valkostunum hvað varðar það markmið að veita lífeyrisþegum hlutdeild í þjóðarframleiðslu án samtíma vinnuframlags til framleiðslunnar. Hins vegar felst sú áhætta í uppsöfnunarsjóðsleiðinni að fjárfestingar í verðbréfum innanlands og utan misfarist eins og nú hefur orðið reyndin.

Í almennri umræðu um lífeyrissjóðsmál á nýliðinni útrásar- og uppgangstíð í íslenzka hagkerfinu hefur kveðið við annan tón um þessa hlið málsins.  „Einkavæðingin leysti úr læðingi mikinn kraft sem lífeyrissjóðirnir nutu góðs af bæði sem hluthafar í bönkunum og jafnframt sem þátttakendur á kröftugum fjármagnsmarkaði,” sagði forstjóri eins stærsta lífeyrissjóðsins í nóvember 2007.  „Ekkert lífeyrissjóðakerfi í heiminum er svo stöndugt sem hið íslenska,” sagði formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands vorið 2006.  „Af þessu leiðir m.a. að framtíðarbyrðar ríkissjóðs Íslands vegna lífeyrisgreiðslna eru hverfandi miðað við það sem gerist með flestum öðrum iðnríkjum,” bætti hann við.  Það má vissulega til sanns vegar færa, en hins vegar orkar mat hans á þýðingu þess tvímælis:  „Auðvitað er þetta gríðarlegur styrkur fyrir íslenskt þjóðarbú og samfélag.”

Í grein tveggja starfsmanna Seðlabanka Íslands um lífeyrissjóðsmál segir t.d. í upphafi:  „Ekki er að sjá að stórfelldur peningasparnaður Íslendinga með lífeyrissjóðum hafi leitt til samsvarandi þjóðhagslegs sparnaðar.”  Lokaorð höfunda eru síðan þessi: „Engin merki sjást um það í þjóðhagsreikningum að peningasöfnun lífeyriskerfis okkar hafi stuðlað að söfnun raunverulegra verðmæta umfram það sem gerist hjá þjóðum sem greiða lífeyri með skattheimtu.”  (Peningamál, des. 2005)  Kröftugur vöxtur lífeyrissjóðanna virðist því ekki hafa aukið sparifjármyndun eða verðmætasköpun í íslenzka hagkerfinu.

Fjárhagslegur styrkur íslenzka lífeyrissjóðakerfisins er engu að síður mikill.  Á örlagastund í íslenzku samfélagi er eðlilegt að hugleiða hvernig virkja megi þann styrk þjóðinni til mestra heilla.  Heimili landsins – eigenda lífeyrissjóðanna – skulduðu innlenda lánakerfinu 1.890 milljarða í septemberlok.  Núverandi skipan lífeyrissjóðsmála okkar miðar að því að tryggja afkomuöryggi þjóðfélagþegna við aðstæður gjörólíkar þeim sem nú endurspeglast í atvinnu- og tekjumissi vinnufærra manna og kvenna og yfirvofandi greiðsluþroti fjölmargra launþega.  Fyrirheit um lífeyrissjóðsgreiðslur eftir 70 ára aldur skiptir engu fyrir ungan fjölskylduföður eða einstæða móður sem geta ekki innleyst lífeyrissjóðseign sína á aðsteðjandi ögurstund.

Gegnumstreymiskerfi hafa reynst öðrum þjóðum vel.  Ef núverandi fyrirkomulagi íslenzkra lífeyrissjóðsmála væri breytt í slíkt kerfi væri þungri byrði létt af þúsundum fjölskyldna án nokkurs fórnarkostnaðar.  Innlausn uppsafnaðs sparnaðar lífeyrissjóðsmeðlima og erlendra eigna lífeyrissjóðanna myndi styrkja erlenda gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins og skapa aukið svigrúm fyrir atvinnuörvandi peningastefnu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón hlakkar til að fá tækifæri til að hitta Long – „Hann þykir samt almennt hress“

Jón hlakkar til að fá tækifæri til að hitta Long – „Hann þykir samt almennt hress“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Inga nýtur sín á Tenerife en er samt í vinnunni – „Ég er ekki ein löggjafinn“

Inga nýtur sín á Tenerife en er samt í vinnunni – „Ég er ekki ein löggjafinn“
Eyjan
Fyrir 2 vikum

ESB-aðild: Eldstormur geisar – viljum við standa úti eða fara í skjól?

ESB-aðild: Eldstormur geisar – viljum við standa úti eða fara í skjól?
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Guðrún krefst þess að Kristrún segi eitthvað – „Við þurfum að tala skýrt“

Guðrún krefst þess að Kristrún segi eitthvað – „Við þurfum að tala skýrt“