Talaði áðan við franska blaðamenn sem eru komnir hingað til að skrifa grein um íslenskar glæpasögur.
Þurfti að skýra út fyrir þeim að þetta sé mestan part fantasía. Að glæpir á Íslandi séu yfirleitt frekar óáhugaverðir. En hins vegar séu þeir býsna spennandi í bókum Arnaldar, Yrsu og Árna Þórarinssonar.
Ég nefndi líka við þá að einn faðir nútíma glæpasögunnar, Dashiell Hammett, hefði orðið fyrir áhrifum af Íslendingasögunum og stíl þeirra. Hammett er faðir hinnar kaldhömruðu amerísku glæpasögu.
Bækurnar eftir Hammett og Raymond Chandler eru frekar stuttar. Þær eru harðsoðnar eins og sagt er. Georges Simenon skrifaði líka stuttar glæpasögur, það tók hann þrjár vikur að semja hverja bók. Samt fönguðu þessir höfundar andrúmsloft af miklu næmi.
Íslensku glæpasagnahöfundarnir skrifa ekki sérlega mikið í anda Íslendingasagnana. Áhrifavaldarnir eru fremur frá Skandinavíu, Henning Mankell fyrst og fremst. Og eins og var bent á í Kiljunni um daginn hafa glæpasögurnar verið að lengjast. Það þýðir fleiri aukapersónur, fleiri útúrdúrar, lengri lýsingar.
Sem er ekki alltaf til bóta.