Gunnar Smári Egilsson er einn flinkasti blaðamaður sem ég hef unnið með. Hugmyndaríkur, drífandi og skapandi. Hann er maður sem vill byggja upp hratt, hrinda hlutum í framkvæmd, svo á hann það til að missa áhugann fljótt aftur. En hann er engum líkur þegar á að koma saman blaði.
Hann er hins vegar ekki góður rekstrarmaður – margt sem hann hefur sett á laggirnar hefur farið á hausinn. NFS var rugl og kaupin á prentsmiðjunni Wyndham voru ekki sniðug. Nyhedsavisen var óvenju gott af fríblaði að vera, en viðskiptalíkanið stóðst ekki.
Gunnar Smári hefur mikinn sannfæringarkraft, hann getur talað ólíklegasta fólk yfir á sitt band. Hann hrífur fólk með sér – en um leið er hann dálítil orkusuga.
Mér skilst að Jón Ásgeir hafi hlítt ráðum Gunnars Smára framan af. Svo fór hann að tapa peningum á ævintýrum hans og hætti að hlusta. Gunnar Smári var á útjaðri útrásarinnar, það er ekki beinlínis góður staður til að hafa verið á eftir hrun. Ef grunur leikur á að menn hafi verið „hrunverjar“ er hætt við að raddir þeirra drukkni í brigslum um svik og svínarí. Gunnar Smári skrifar ágætar greinar, en ég er ekki viss um að margir séu tilbúnir að hlusta á það sem hann hefur að segja.
Gunnar Smári má þó eiga það að hann setti á laggirnar Fréttablaðið. Það varð fljótt stærra en Morgunblaðið. Vissir aðilar eiga mjög erfitt með að fyrirgefa þetta – ég hef grun um að þeim þyki það vera óafsakanlegur glæpur.
Ég veit að Gunnar Smári fékk skilaboð um að hann skyldi aldrei þrífast á Íslandi. Og samkvæmt því sem stendur í bók Jónínu Ben var það ekki síst Gunnar Smári sem stóð í veginum þegar reynt var að koma á sáttum milli Baugsmanna og þáverandi forystu Sjálfstæðisflokksins.