Burma – sem líka er kallað Myanmar – er hræðilegt einræðisríki.
En það er fagnaðarefni að Aung San Suu Kyi hafi loks verið látin laus.
Hún er alvöru hetja. Hefur verið í fangavist undanfarna áratugi.
Fékk friðarverðlaun Nóbels 1991.
En hún er ekki frjáls að öllu leyti. Land hennar er enn undir oki harðstjórnar.
Aung San Suu Kyi á reyndar langa sögu. Hún er dóttir hershöfðingjans Aung San sem var frelsishetja í Burma. Hann var myrtur 1947 þegar dóttir hans var aðeins tveggja ára.
Hún bjó lengi í Englandi, eignaðist þar mann og tvö börn, en fór aftur til Burma til að taka þátt í stjórnmálum þar 1988. Hún varð leiðtogi uppreisnar gegn herforingjastjórninni, en fyrirmyndir hennar voru ávallt baráttumenn sem hafa boðað frið eins og Ghandi og Martin Luther King.
Flokkur hennar sigraði í kosningum sem haldnar voru 1990, en herforingjarnir viðurkenndu ekki úrslitin, hún var sett í stofufangelsi og haldið þar til 1995. Henni var sleppt nokkrum árum síðar, en allt í allt hefur hún eytt 15 árum af síðustu tuttugu í einhvers konar varðhaldi.