Finnska myndlistarkonan og rithöfundurinn Tove Jansson skapaði fjarskalega fallegan ævintýraheim í Múmíndal. Ég las þessar bækur upp til agna þegar ég var strákur – og lét ekki stöðva mig að ég grunaði fyrst að þetta væru frekar stelpubækur. Bjó reyndar þannig um hnútana að systur minni voru gefnar bækurnar, sem ég svo las snimendis.
Titlarnir voru Pípuhattur galdramannsins, Vetrarævintýri í Múmíndal, Örlaganóttin, Halastjarnan og Eyjan hans Múmínpabba.
Ég man ekki hvort fleiri komu út – og veit ekki hvort til eru fleiri titlar á frummálinu sem er n.b. sænska.
Múmínálfarnir eru reyndar líka til í smábarnabókum og teiknimyndaseríum – og svo getur maður farið til Finnlands þar sem eru víða búðir sem selja varning upp úr Múmínálfabókunum. Í fyrra var ég í Helsinki og keypti Múmínsnáðann, Múmínmömmu og Múmínpabba.
Persónurnar í Múmíndal eru hver annarri hugþekkari:
Hinn hugprúði Múmínsnáði, hinn hugsandi en dálítið klaufski pabbi, hin jarðbundna og góðhjartaða móðir, ólíkindatólið Mía, Snúður með flökkueðli sitt, Hemúllinn með söfnunaráráttuna og hinn huglausi Snabbi.
Svo er fullt af minni persónum sem er ógleymanlegar: Morrinn í köldum einmanaleik sínum, Skíðahemúllinn sem minnti mig alltaf á Valdimar Örnólfsson, hundurinn Aumi sem þráir félagsskap úlfa, Tikka-tú, Fillifjonkan með dætur sínar, Bísamrottan sem les bókina um tilgangsleysi allra hluta, strangi lystigarðsvörðurinn.
Þetta eru sígildar bókmenntir. Þær komu út á sínum tíma og hafa ekki alltaf verið fáanlegar síðan þá. En ég sá í bókabúð um daginn að Halastjarnan er komin út aftur í kilju. Það er gott.