Lesandi síðunnar í Þýskalandi sendi þessa stuttu orðsendingu í tilefni af grein um millistéttina sem birtist hér á vefnum fyrr í dag. Hann bendir á bók eftir blaðakonuna Ulrike Hermann sem er mjög umtöluð í Þýskalandi, en bókin nefnist Hurra wir dürfen zahlen! – Der Selbstbetrug der Mittelschicht.
— — —
Hér í Þýskalandi kom nýverið út afar fróðleg bók eftir Ulrike Herrmann blaðakonu hjá taz þar sem hún tætir sundur og flettir ofan af þessu hugtaki Mittelklasse sem hefur gjarnan verið notað af stjórnmálamönnum allra flokka í þeim tilgangi að kjósendur sætti sig við ríkjandi ástand. Allir séu í sömu millistéttar-skútunni þegar öllu er á botninn hvolft og eigi því sömu hagsmunanna að gæta. Þess vegna megi til dæmis ekki hækka skatta og þess vegna sé rétt að lækka atvinnuleysisbætur. Þeir sem í raun hagnast á þessari pólitík séu hinir fáu rorríku sem einnig segðust vera Mittelstand enda herbragð þeirra sem hafa töglin og hagldirnar að fara leynt með auðæfi sín og völd.