Jón Trausti Reynisson skrifar leiðara í DV um tilraunir vissra afla til að tvískipta umræðunni, pólarísera hana – ritstjórinn ungi varar við þessu:
— — —
„Bubbi Morthens hefur rétt fyrir sér. Jón Ásgeir Jóhannesson ber ekki einn ábyrgð á hruninu. Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur líka rétt fyrir sér. Davíð Oddsson ber ekki einn ábyrgð á hruninu. Geir H. Haarde hefur líka rétt fyrir sér. Hann ber ekki einn ábyrgð á hruninu. Meira að segja Jóhanna Sigurðardóttir hefur rétt fyrir sér. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir báru ekki ein ábyrgð á hruninu, heldur margir aðrir.
Nú dynur á okkur stöðugur áróður um sakleysi sumra og sekt annarra. Bubbi Morthens líkir Davíð Oddssyni við einn brjálaðasta herforingja sögunnar – mann sem lagði hvert heimsveldið á fætur öðru. „Hann er jafnvoldugur og Genghis Khan á sínum tíma,“ sagði Bubbi á Rás 2. Hugmyndin virðist vera að endurvekja tvískiptingu samfélagsins milli Sjálfstæðisflokks, undir forystu Davíðs, og Baugsmanna, leiddum áfram af Jóni Ásgeiri og Jóhannesi.
Það er alið á meðvirkni með hinum grunuðu. Aðferðirnar eru tvær: í fyrsta lagi er sagt að viðkomandi sé ekki endanleg orsök hrunsins. Í öðru lagi er bent á að andstæðingar viðkomandi vilji koma höggi á hann.
Við eigum ekki að taka þátt í tvískiptingunni. Þau eru öll sek um hrunið. Þeir sem leita að hinum endanlega sökudólgi hrunsins eru í raun í leit að skálkaskjóli. Ábyrgð eins útilokar ekki ábyrgð annars. Davíð Oddsson leysir Jón Ásgeir ekki undan ábyrgð og öfugt. Hrunið hefði aldrei orðið ef sökudólgarnir og orsakirnar hefðu ekki verið svona margar. Endanleg orsök – þar sem orsökin er aðeins ein – er fyrst og fremst þekkt í trúarbrögðum. Nýja Ísland má ekki falla í gryfju trúarlegrar þjóðfélagsumræðu tvíhyggjunnar, eins og það gamla.
Blind fylgispekt við eina eða aðra valdablokk er sjúkdómur sem grefur undan lýðræðinu. Hvorki Baugsmenn né Davíð Oddsson skipta raunverulega máli. Það er ekki samsæri gegn Jóni Ásgeiri og ekkert samsæri gegn Davíð. Hins vegar hefur verið viðvarandi barátta milli sérhagsmunaklíka um völd og peninga, þar sem klíkurnar taka völd og peninga frá almenningi. Svarið við því er ekki að fylkja sér að baki einhverjum leiðtoga, heldur að taka stöðu með hagsmunum fjöldans gegn klíkunum. Lausnin er lýðræði og gegnsæi; meiri völd og upplýsingar til fólksins. Það er stóra stríðið.
Þegar Bubbi talar hlusta margir. Hann gerir gagn ef hann tekur málstað fólksins frekar en að berjast fyrir valdablokkir í keppni við Hannes Hólmstein Gissurarson. Davíð er enginn Genghis Khan. Hann er gamaldags útsendari valdablokkar á ritstjórastóli og Jón Ásgeir er saksóttur maður, dulbúinn sem fjölmiðlaráðgjafi Stöðvar 2. Þeir stýra ekki samfélaginu. Þeir eru upp vaktir draugar fortíðar og skipta engu máli nema sem sögulegur lærdómur. Gleymum þeim og byrjum upp á nýtt – en gleymum aldrei lexíunni sem þeir kenndu okkur.“