fbpx
Mánudagur 18.ágúst 2025
Eyjan

Forn fyndni

Egill Helgason
Mánudaginn 1. nóvember 2010 09:29

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er merkilegt hvað húmor eldist misjafnlega. Sumt sem þótti afskaplega fyndið fyrir fáum áratugum virkar þannig á mann í dag að maður horfir bara á, pínu hissa. En um það leyti að áramótaskaup 1968 var gert skrifaði Guðbergur Bergsson sögu sína Tómas Jónsson metsölubók. Margt í henni er ennþá ógeðslega fyndið – eða það minnir mig.

Jónas Hallgrímsson skrifaði nokkrar gamansögur. Þær eru ekki vitund fyndnar lengur. Manni stekkur ekki bros.

Prófið að lesa Þegar drottningin á Englandi fór í orlof sitt.

Fyrir fólk sem ekki hefur beinlínis ástríðu fyrir Jónasi er þetta  leiðinlegur texti. Ég vona að ég móðgi ekki neinn þegar ég segi þetta.

Ég er líka hræddur við að opna Heljarslóðarorrustu aftur. Ég óttast að húmorinn þar sé orðinn mjög fjarlægur. Hins vegar finnst mér eins og köld fyndnin í Dægradvöl lifi miklu betra lífi.

Svo er mörg hundruð árum eldri fyndni í Íslendingasögunum sem er bara nokkuð góð ennþá.. Sumt af því er húmor af því taginu sem nefnist understatement – þar er Snorri hinn mikli meistari – annað eru lýsingar sem eru fyndnar vegna groddaskapar eins og til dæmis frásagnir af skiptum Grettis Ásmundarsonar við föður sinn.

Svona hljómar það:

grettir.jpg

„Grettir óx upp að Bjargi þar til er hann var tíu vetra gamall. Hann tók þá heldur við að gangast. Ásmundur bað hann starfa nokkuð. Grettir sagði sér það eigi mundu vera vel hent og spurði þó að hvað hann skyldi gera.

Ásmundur svarar: „Þú skalt gæta heimgása minna.“

Grettir svarar og mælti: „Lítið verk og löðurmannlegt.“

Ásmundur svarar: „Leys þú þetta vel af hendi og mun þá batna með okkur.“

Síðan tók Grettir við heimgásunum. Þær voru fimm tigir og með kjúklingar margir. Eigi leið langt áður honum þóttu þær heldur bágrækar en kjúklingar seinfærir. Honum gerði mjög hermt við þessu því að hann var lítill skapdeildarmaður. Nokkuru síðar fundu förumenn kjúklinga dauða úti og heimgæs vængbrotnar. Þetta var um haustið. Ásmundi líkaði stórilla og spurði hvort Grettir hefði drepið fuglana.

Hann glotti að og svarar:

Það geri eg víst, er vetrar,
vind eg háls á kjúklingum.
Enn þótt eldri finnist
einn ber eg af sérhverri.

„Og skaltu eigi lengur af þeim bera,“ sagði Ásmundur.

„Vinur er sá annars er ills varnar, sagði Grettir.

„Fást mun þér verk annað,“ sagði Ásmundur.

„Fleira veit sá er fleira reynir,“ sagði Grettir, „en hvað skal eg nú gera?“

Ásmundur svarar: „Þú skalt strjúka bak mitt við elda sem eg læt jafnan gera.“

„Heitt mun það um hönd,“ sagði Grettir, „en þó er verkið löðurmannlegt.“

Fór nú svo fram um hríð að Grettir heldur þessum starfa. Tekur nú að hausta. Gerðist Ásmundur heitfengur mjög og eggjar Gretti að strjúka fast bak sitt.

Það var háttur í þann tíma að eldaskálar voru stórir á bæjum. Sátu menn þar við langelda á öftnum. Þar voru borð sett fyrir menn og síðan sváfu menn upp frá eldunum. Konur unnu þar tó á daginn.

Það var eitt kveld að Grettir skyldi hrífa bak Ásmundar að karl mælti: „Nú muntu verða af þér að draga slenið, mannskræfan,“ segir hann.

Grettir segir: „Illt er að eggja óbilgjarnan.“

Ásmundur mælti: „Aldrei er dugur í þér.“

Grettir sér nú hvar stóðu ullkambar í setinu, tekur upp kambinn og lætur ganga ofan eftir baki Ásmundar. Hann hljóp upp og varð óður við og vildi ljósta Gretti með staf sínum en hann skaust undan. Þá kom húsfreyja að og spurði hvað þeir áttust við.

Grettir kvað þá vísu þessa:

Mik vill menja stökkvir,
mjög kenni eg þess, brenna,
hodda grund, á höndum,
höfugt ráð er það báðum.
Læt eg á hringa hreyti,
hör-Gerðr, tekið verða
görr, sé eg gildra sára
gögl, óskornum nöglum.

Illa þótti húsfreyju er Grettir hafði þetta til tekið og kvað hann ekki fyrirleitinn verða mundu. Ekki batnaði frændsemi þeirra Ásmundar við þetta.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Terence Stamp látinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón hlakkar til að fá tækifæri til að hitta Long – „Hann þykir samt almennt hress“

Jón hlakkar til að fá tækifæri til að hitta Long – „Hann þykir samt almennt hress“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Inga nýtur sín á Tenerife en er samt í vinnunni – „Ég er ekki ein löggjafinn“

Inga nýtur sín á Tenerife en er samt í vinnunni – „Ég er ekki ein löggjafinn“
Eyjan
Fyrir 2 vikum

ESB-aðild: Eldstormur geisar – viljum við standa úti eða fara í skjól?

ESB-aðild: Eldstormur geisar – viljum við standa úti eða fara í skjól?
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Guðrún krefst þess að Kristrún segi eitthvað – „Við þurfum að tala skýrt“

Guðrún krefst þess að Kristrún segi eitthvað – „Við þurfum að tala skýrt“