Það er svosem ekki furða að lögmaðurinn Brynjar Níelsson vilji láta færa réttarhöldin yfir Glitnismönnum heim til Íslands.
Í Baugsmálinu tókst sakborningunum að terrorísera dómskerfið með því að beita valdi sínu. Þeir höfðu á snærum sínum sveitir lögfræðinga sem höfðu úr miklu meiri fjármunum að spila en rannsóknaraðilarnir – það var haldið uppi linnulausum árásum á þá og dómstólarnir voru truflaðir í sífellu með alls kyns lagatækni.
Menn voru líka bláeygir hér. Ákærur saksóknarans voru klaufalegar, dómarar virðast ekki alveg hafa skilið málið. Málalokin voru svo nokkuð furðuleg, Það endaði með því að Tryggvi Jónsson, Jón Ásgeir Jóhannesson og Jón Gerald Sullenberger fengu skilorðsbundna dóma.
Málið var flopp, það verður að segjast eins og er. Og með þessu má segja að stjórnendum fyrirtækja hafi verið gefið grænt ljós á að blóðmjólka þau í eigin þágu.