Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti ræðu á fundi hjá Félagi atvinnurekenda 6. október. Þorsteinn boðar það sem hann kallar Hófsemdarstefnu – og vill að þungamiðja stjórnmálanna færist inn á miðjuna. Ræðan er athyglisverð, en það er spurning hvort menn verði ekki að segja B fyrst þeir eru búnir að segja A. Er mönnum eins og Þorsteini vært lengur í Sjálfstæðisflokki sem þeir telja að sé á valdi öfga? Hvað til dæmis ef boðað yrði til kosninga í vetur – myndi Þorsteinn þá styðja sinn gamla flokk?
Þorsteinn segir í ræðunni:
„Sósíalistar í Vinstri grænum ásamt meirihluta Sjálfstæðisflokksins eru nú Þrándur í Götu frekara samstarfs Íslands við Evrópuþjóðirnar. Þar með er útilokað að íslensk heimili og íslenskt atvinnulíf geti reist nýja framtíð á stöðugri mynt.
Grundvallarágreiningur er hins vegar á milli Sjálfstæðisflokksins og sósíalista í Vinstri grænu um skattamál, orkunýtingu og fiskveiðistefnu. Þessir flokkar geta því ekki unnið saman þó að þeir eigi samleið í Evrópumálum og peningamálum.
Evrópumálin útiloka samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þótt ágreiningur á öðrum sviðum sé brúanlegur.
Komi til þess að Samfylkingin króist af í Evrópumálunum er líklegt að hún gefi þau fremur eftir gagnvart samstarfsflokknum í núverandi ríkisstjórn en Sjálfstæðisflokknum.
Ólíklegt er að Samfylkingin myndi í því falli kjósa að standa utan stjórnar. Þó er ekki unnt að útiloka það.
Þetta er einföld mynd af þeirri óleysanlegu málefnakreppu á vettvangi stjórnmálanna sem veldur stöðnun efnahagslífsins og upplausn í samfélaginu.
Eigi þessi staða að breytast þarf þingmönnum á miðju og hægri væng stjórnmálanna sem styðja frekari Evrópusamvinnu að fjölga til muna. Ella verður málefnakreppan viðvarandi.
Telja verður líklegt að einhvers konar þróun af þessu tagi muni eiga sér stað. Annað væri merki um varanlega grundvallarbreytingu á viðhorfi fólks á miðju og hægri væng stjórnmálanna.
Smám saman mun koma í ljós að pólitískir og efnahagslegir hagsmunir kalla á að slíkt hugmyndafræðilegt jafnvægi verði á ný að veruleika í íslenskum stjórnmálum.“